Um

iris

Vertu velkomin/n á síðuna mína. Ég heiti Íris og er ljósmyndari að mennt, á frábæran eiginmann og við eigum 4 dásamleg börn,  Dagbjörtu 13 ára, Aron 10 ára, Ástrós 5 ára og Emil 2 ára.

Þegar við urðum foreldrar í fyrsta sinn vorum við búsett í Danmörku og þar tíðkaðist ekki að kaupa tilbúinn barnamat heldur að búa hann til frá grunni. Það gerðum við samviskusamlega enda miklu minna mál en mig hafði nokkurn tímann grunað. Þegar við fluttumst til Íslands ári síðar þekktum við ekkert annað en að útbúa matinn sjálf. Það kom mér hins vegar á óvart að flest allir sem ég þekkti til og voru með lítil börn hér heima keyptu tilbúinn barnamat. Ég prófaði að kaupa pakkagrauta og mauk til að geta gripið til ef tími til matseldar væri naumur en stelpan okkar leit ekki við því. Úr varð því að hún borðaði eingöngu mat eldaðann frá grunni og það sama gilti um drenginn okkar sem fæddist 3 árum síðar. Þegar þriðja barnið bættist í hópinn flýtti ég þó stundum fyrir mér og greip í lífræna grauta sem fljótlegt var að útbúa en allt mauk gerði ég þó sjálf.

Yngsta barnið okkar kom í heiminn í júlí 2015 og hefur hann ekki verið nein undantekning hvað heimatilbúinn mat varðar, hér eru grautar eldaðir frá grunni og maukað alveg út í eitt. Ég komst þó á snoðir um danska lífræna barnagrauta sem hann hefur fengið í bland við þá heimatilbúnu. Þessir grautar eru einstaklega bragðgóðir og fjölbreytnin mikil. Hann alveg elskar grautana frá Woodland Wonders og ég er svo ánægð með grautana að ég ákvað að flytja þá inn til gefa öðrum kost á að njóta þeirra. Þetta vatt allt saman uppá sig og úr varð netverslun þar sem hægt er kaupa vandaðar barnavörur sem allar hafa það sameiginlegt að vera lausar við öll eiturefni og vera umhverfisvænar.

Ég hef haft brennandi áhuga á næringarfræði síðan í menntaskóla og lesið mér heilmikið til í þeim efnum. Ég hef gaman af því að prófa mig áfram í eldhúsinu og töluverða reynslu af því að gefa börnum að borða eftir að hafa grautað og maukað meira og minna sl. 12 ár. Sá fróðleikur sem ég deili með ykkur hér byggir á minni eigin reynslu og þeirri þekkingu sem ég hef viðað að mér í gegnum árin. Vona að þið hafið gagn og gaman af síðunni.

Íris