Unicorn íspinnar


Ég kalla þessa fallegu íspinna unicorn pinna afþví litirnir í þeim minna á þemaliti einhyrninga. Þessir eru hollir og góðir til að kæla sig aðeins á sólríkum sumardögum,  sóma sér vel í barnaafmælinu, í eftirrétt hvaða dag vikunnar sem er og þá má meira segja borða í morgunmat, svo hollir eru þeir!

3 dl hreint skyr
1 msk Sweet Like Syrup frá Good Good
10 dropar Vanillu stevia frá Good Good (má sleppa)
1/4 tsk vanilludropar
2 msk sykurlaus jarðaberjasulta frá Good Good
2 msk sykurlaus bláberjasulta frá Good Good
2 msk sykurlaus aprikósusulta frá Good Good
Spirulina duft á hnífsoddi

Hrærið vel saman skyri, sírópi, stevíu og vanilludropum og skiptið blöndunni jafnt í 4 skálar. Bætið svo jarðaberjasultunni í eina skál,  bláberjasultu í aðra, aprikósusultunni í þá þriðju og hrærið hverja blöndu fyrir sig vel saman. Ef þið viljið ná fram ljósgræna litnum er sett örlítið af spirulina dufti í síðustu skálina og hrært vel, annars má alveg sleppa því og hafa bara hvítt.

Teskeið af hverri blöndu sett til skiptis í íspinnaform þar til það er fullt og íspinnaprik sett í. Fryst í amk 6 klst.

Ég notaði íspinnamót úr sílikoni sem ég keypti í Allt í köku, þau eru frekar lítil en mér finnst það mikill kostur, oft eru íspinnamót svo stór og pinnarnir verða því voða stórir og sérstaklega börn geta ekki klárað, en þessir eru fullkomin stærð.

 

Færslan er unnin í samstarfi við GoodGood en það en það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

 

Sumarið

Sumarfríið er hafið hjá grunnskólabörnum landsins og fljótlega komast leikskólabörnin og vonandi foreldrarnir líka í langþráð frí. Sumarfríið er (mis)langur tími sem er góður til að skapa saman dýrmætar og skemmtilegar minningar. Mikilvægt er samt að njóta stundarinnar og hversdagsleikans, því í raun er það hversdagsleikinn sem skipar stærstan sess í lífi okkar flestra. Við megum ekki alltaf vera að bíða eftir stóru viðburðunum og gleyma að njóta í núinu. Því þetta snýst jú ekki um áfangastaðinn heldur ferðalagið.

Fyrir nokkrum árum síðan dró ég fram stórt blað og bað börnin að teikna það sem þau langaði að gera í sumarfríinu sínu. Þau fylltu blaðið af allskyns hugmyndum bæði stórum og smáum, því sem brýtur upp hversdagsleikann og svo stærri hugmyndum sem kröfðust bæði ferðalaga og kostnaðar.
Blaðið var svo hengt upp á vegg og notað sem hugmyndabanki að einhverju skemmtilegu sem við fjölskyldan gerðum saman það sumarið. Þessi hugmynd sló svo í gegn að þetta hefur verið gert ár hvert síðan.

Ég sýndi einmitt smá frá því um daginn þegar mín 4 voru að teikna á blað sumarsins í Story á Instagram, endilega fylgist með þar, því þar kemur eitthvað skemmtilegt inn flest alla daga.

Ég mæli með að þið prófið þetta heima hjá ykkur og sjáið hvaða skemmtilegu hugmyndir barnið/börnin ykkar koma með.

Þetta er eitthvað af því sem við fjölskyldan munum gera saman í sumar og skapa um leið dýrmætar og dásamlegar minningar.

Morgunverðar “parfait”

Ég er mikill aðdáandi “parfait” en það þýðir í raun fullkomnun og er upphaflega ættað frá Frakklandi eins og nafnið gefur til kynna, hjá þeim er þetta eftirréttur, einskonar búðingur. Ameríska útgáfan af parfait er líka eftirréttur en inniheldur t.d. hnetur, granóla, þeyttan rjóma osfrv. í lögum, borið fram í háu glasi.

Ameríska útgáfan heillaði mig fyrir þónokkrum árum en þó aðallega útlitið og hef ég leikið mér með fjölmargar hollari útgáfur af parfait síðan þá. Hér má finna eina þeirra, sem er holl og tiilvalin í morgunmat. Hér mætast frískandi AB mjólkin, keimur af kókos, gómsætt granóla, súkkulaði og jarðaber. Sannkölluð fullkomnun!

Hrein AB mjólk
Sweet drops of Stevia með kókos frá GoodGood
Gott granóla, uppskrift finnur þú hér
Jarðaber

Byrjað er á að blanda stevíu dropunum út í AB mjólkina, best er að byrja á 1-2 dropum og smakka sig til, sumir vilja meira kókosbragð og aðrir minna. Jarðaberin skoluð,  þerruð og skorin í sneiðar eða bita. Öllum innihaldsefnunum raðað til skiptis í falleg glös. Svo er bara að njóta þess að borða eftirrétt í morgunmat.

Færslan er unnin í samstarfi við GoodGood en það en það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

Sætar kartöflur

 

Sætar kartöflur eru frábærar sem fyrsta fæða barnsins, þær eru næringarmiklar og sæta bragðið sem einkennir þær gerir það auðvelt að kynna þær fyrir barninu þó það sé jafnvel eingöngu 4-5 mánaða gamalt.

Það vefst fyrir sumum hvar og hvernig á að byrja svo hér fylgir er ótrúlega einföld uppskrift sem gott er að byrja á.

Mér finnst auðveldast að gufusjóða þær en það er líka hægt að baka þær heilar í ofni þar til gaffall rennur í gegn þegar stungið er í (uþb. 1-1,5 klst.) og skafa svo innan úr hýðinu og mauka.

2 litlar sætar kartöflur eða 1 stór

Sætu kartöflurnar þvegnar, afhýddar og skornar í teninga, settar í gufusuðusigti og soðnar í 15-20 mínútur eða þar til þær eru mjúkar. Maukað með töfrasprota eða í matvinnsluvél og soðvatninu bætt útí eftir þörfum þar til þeirri áferð sem óskað er eftir  er náð.

Geymist í 3-4 daga í vel lokuðu íláti í ísskáp og 3 mánuði í frysti.

Páska ratleikur

Þennan póst skrifaði ég fyrir Foreldrahandbókina í fyrra en ákvað að birta hann hér núna ef hann gæti nýst einhverjum ykkar við páskaeggja ratleikinn.

Það hefur verið hefð á okkar heimli fyrir því að hafa ratleik fyrir börnin á páskadagsmorgun sem leiðir þau að eggjunum sínum.
Þetta höfum við gert alveg frá því elsta stelpan okkar var 2 ára. Framan af voru þetta einfaldar myndir sem við fundum netinu og földumá einföldum stöðum. Eftir því sem börnin eldast hefur vísbendingunum fjölgað og þeim komið fyrir á erfiðari stöðum.

Fyrir 2 árum síðan fannst okkur þetta orðið heldur auðvelt fyrir elstu 2 börnin og ákvað maðurinn minn því að breyta aðeins til. Hann skellti saman á augabragði vísbendingum sem eru í raun gátur og mikla gleði barnanna. Þau leystu þetta í sameiningu, brutu heilann og leituðu saman.

Þessar verða notaðar aftur í ár, bara síðustu vísbendingunni breytt og falið á mun erfiðari stöðum.

Elsta stelpan okkar tekur alltaf að sér að búa til ratleikinn fyrir systur sína sem er 8 árum yngri og dundar sér við að teikna og lita vísbendingarnarl

Langaði að deila þessu með ykkur hinum svo þið gætuð nýtt ykkur svona ef þið eigið eftir að græja eitthvað fyrir páskaegggja leitina í ár. Hér má finna gáturnar http://www.infantia.eu/Downloads/Paskaeggjaleit.pdf

Gleðilega páska

P.s. Ef þér líkaði þessi póstur þætti mér mjög vænt ef þú myndir deila honum, og ef þú prófar þetta endilega taktu mynd og deildu á instagram með #infantiais eða @infantia.is á myndina 🙂

 

 

Granóla með kókos, hnetum og súkkulaði

Ég hef birt þessa uppskrift áður og hún er enn í jafn miklu uppáhaldi á heimilinu og þá. Í þetta sinn notaði ég hinsvegar Sweet like Syrup frá GoodGood sem gerir granólað enn hollara og alls ekki síðra á bragðið.

Sweet like Syrup er algjörlega sykurlaust en bragðið alveg á pari við gott hlynsíróp og því kemur það alveg í stað þess á pönnnukökurnar og hentar vel í stað agave síróps eða hungangs í aðrar uppskrftir.

3 bollar trölla hafrar
1/2 bolli möndlur, saxaðar
1/2 bolli pecan hnetur, saxaðar
2 msk kakó
1,5 tsk vanilluduft eða 3 tsk vanilludropar
5 msk Sweet like Syrup frá Good Good
1 msk kókosolía
4 msk chia fræ
1 bolli kókosflögur
70g dökkt súkkulaði gróft saxað, ég nota suðusúkkulaði

Höfrum, möndlum, pecan hnetum, kakói og chia fræjum blandað vel saman í skál. Sírópið  og kókosolían sett á pönnu og hitað þar til vel fljótandi (ef notaðir eru vanilludropar skal setja þá á pönnuna). Hafrablöndunni hellt út á og blandað vel þannig að hunangið og olían hjúpi allt saman. Sett á bökunarpappír á plötu, dreift vel úr og sett í ofn á 150°c (ekki blástur), bakað í 18-20 mínútur, hræra vel í þegar tíminn er hálfnaður. Þegar platan er tekin út úr ofninum er kókosflögunum blandað saman við á meðan granólað er enn heitt. Látið kólna alveg á plötunni og súkkulaðinu blandað saman við.

Geymist í vel lokuðu íláti í allt að 4 vikur, en það hefur aldrei reynt á það á mínu heimili, þetta klárast á nokkrum dögum, svo gott er þetta!

Heima hjá okkur borðum við granólað út á Ab mjólk og það er dásamlegt að bæta ferskum berjum útá, ofan á smoothie eða í parfait, en einnig hægt að nota út á gríska jógúrt, skyr eða jafnvel með mjólk fyrir þá sem vilja það. Þetta granóla ratar líka reglulega í nestisboxið hjá elstu stelpunni, þá fær hún það sér út á Ab mjólk í nestistíma í skólanum.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

 

Súkkulaði og berja pizza

Þegar þetta þrennt uppáhalds, súkkulaði, ber og pizza mætist í einu þá er veisla! Fáránlega fljótlegt, einfalt og gómsætt.

Það eina sem þarf í þetta er:
Kanilsnúðadeig í rúllu (má auðvitað nota heimatilbúið)
Súkkulaðismjör, ég mæli með Choco Hazel frá GoodGood
Ber að eigin vali

Kanilsnúðadeginu rúllað út, skellt á bökunarplötu og inn í 185°c heitan ofn í 5-7 mínútur eða þar til það er farið að taka á sig pínu gylltan lit. Á meðan eru berin þvegin og skorin niður. Súkkulaðismjörinu dreift yfir þegar degið kemur út úr ofninum, á meðan það er enn heitt. Berjunum stráð yfir og borið fram. Njótið!

Tilvalið sem fljótlegur eftirréttur, í saumaklúbbinn, barnaafmælið eða bara jafnvel í drekkutíma á sunnudegi.

Færslan er unnin í samstarfi við GoodGood en það en það hefur þó engin áhrif á álit mitt vörunum.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

Heimatilbúinn leir

Börnin mín elska að leira, sérstaklega þau 2 yngstu. Það er svo ótrúlega þægilegt og einfalt að búa leirinn bara til heima, í hvaða  lit sem óskað er eftir, með glimmeri fyrir þá sem það vilja og hann er auðvitað alveg laus við allan óþverra.
Tala nú ekki um hversu miklu ódýrari hann er…..og betri líka!

Þetta tekur án gríns aðeins örfáar mínútur, svo á skömmum tíma er hægt að búa til leir í öllum regnbogans litum.

1/2 dl salt
1 tsk cream of tartar
1/2 bolli hveiti
1/2 bolli vatn
1 1/2 tsk olía
matarlitur
glimmer ef vill (ég nota kökuglimmer)

Þurrefnin sett í pott og blandað vel saman. Matarliturinn settur út í vatnið og bætt út í pottinn á samt olíunni. Þetta er svo allt hrært saman og hitað á miðlungshita. Mikilvægt er að hræra stöðugt í blöndunni. Það geta myndast kekkir en bara merja þá úr með sleifinni og halda áfram að hræra. Blandan þykknar hratt og þegar hún er farin að safnast saman í klump utan um sleifina er klumpnum skellt á bökunarpappír. Mesti hitinn látinn rjúka úr og svo hnoðað örlítið saman og voilà! Tilbúinn leir.

Leirinn er svo geymdur í loftþéttu íláti eða zip lock pokum. Ef hann byrjar að þorna eftir mikla notkun eða hefur staðið of lengi á borði er bara að skella klumpnum undir krannann og bleyta aðeins, hnoða vel saman og þá er hann eins og nýr.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

 

Kókospönnukökur

Þessar pönnukökur eru algjörar uppáhalds og gaman að gera t.d. um helgar þegar gera á vel við sig, geggjaðar hvort sem er í morgunmat, með kaffinu eða sem millimál. Þær innihalda enga óhollustu og því er hægt að njóta þeirra með góðri samvisku, ég tala nú ekki um ef meðlætið með þeim er vel valið líka.

2 egg
1 miðlungsstór vel þroskaður banani
1/2 bolli kókosmjöl
1/2 tsk vanilluduft
Kókosolía til steikingar

Bananinn stappaður og öllu blandað vel saman. Panna smurð með kókosolíu og smá deig sett á pönnuna, dreift aðeins úr með skeið og steikt við miðlungshita í nokkrar mínútur á hvorri hlið þar til fallega gylltar.

Borið fram með t.d. bláberjum, jarðaberjum, hindberjum eða öðrum ávöxtum og góðu sírópi, sultu eða súkkulaðismjöri.

Pönnukökurnar má líka gjarnar stinga í nestisboxið ásamt ávöxtum.

Fyrir nokkru síðan fékk ég að prófa vörurnar frá íslenska fyrirtækinu GoodGood (ég hafði að vísu verið að nota bæði Choco Hazel og Sweet like sugar áður). Vörurnar þeirra eru ekki bara ótrúlega bragðgóðar heldur líka góðar fyrir kroppinn. Þær innihalda engan sykur en notast er við náttúruleg sætuefnin eins og stevíu og sykuralkóhóla á borð við maltitol og erítrítól. Vörurnar hafa miklu minni áhrif á hækkun blóðsykurs en hvítur sykur gerir, og sumar þeirra hækka hann alls ekki. Þessar vörur eru frábærar fyrir þá sem vilja gómsætt bragð en minni óhollustu.

Þetta súkkulaðismjör er dásamlega gott og okkur öllum þykir það betra en hið eina sanna Nutella og þá er nú mikið sagt því börnin mín 2 elstu hreinlega elska það.

Sírópið er líka ótrúlega bragðgott og kemur algjörlega í stað hlynsíróps á pönnukökurnar.

Færslan er unnin í samstarfi við GoodGood en það en það hefur þó engin áhrif á álit mitt vörunum.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

Þvoðu fatnað og rúmföt fyrir notkun!

Nýr fatnaður og rúmföt geta innihaldið leifar af ýmsum óæskilegum efnum sem geta verið skaðleg heilsunni og  umhverfinu. En með eftirfarandi ráðum má minnka áhættuna á því.

Varasöm og óæskileg efni geta verið notuð í textílframleiðslu af ýmsum ástæðum, t.d:
Til að lita efnin eða bleikja þau, mýkja eða gera straufrí.
Fatnaður getur líka innihaldið efni sem eru eldtefjandi, berjast gegn myglu og minnka svitalykt, í nýjum fatanaði má einnig stundum finna leifar af skordýraeitri.

Þessi óæskilegu efni fylgja fatnaði og sængurfötum þegar þau eru keypt og geta valdið ofnæmisviðbrögðum svo sem útbrotum og kláða. Nokkur þessara efna eru grunuð um að geta raskað hormónajafnvægi og jafnvel verið krabbameinsvaldandi.

Leifar þessara óæskilegu efna er hinsvegar hægt að þvo í burtu og eftir 1-2 þvotta er megnið af þeim horfið. En með því minnkar þú þau áhrif sem efnin hafa á húðina.
Það er því er MJÖG mikilvægt að þvo allan nýjan fatnað og sængurföt fyrir notkun.

Þó er ekki hægt að þvo öll óæskileg efni úr nýjum fötum. Þalöt er ekki hægt að þvo í burtu, en það er efni sem notað er til að mýkja PVC plast sem má finna t.d. í regnfatnaði og ýmsum myndum á fatnaði t.d. á bolum. Þalöt geta valdið hormónatruflunum.

Íþróttafatnaður og sokkar geta innihaldið bakteríudrepandi efni á borð við nanósilfur og tríklósan til að draga úr svitalykt. Tríklósan er óæskilegt fyrir umhverfið og leikur grunur á að það geti raskað hormónajafnvægi. Það er því verið æskilegt að sleppa því að kaupa fatnað sem merktur er “lyktarlaus” og “bakteríudrepandi”

Þeir sem vilja forðast þessi óæskilegu efni í fatnað og rúmfötum ættu að velja vörur sem bera umhverfismerki á borð við:
Svaninn
Blómið
Umhverfismerki EBS
GOTS merkið
Oeko-Tex
Allur fatnaður sem ber þessi merki er framleiddur án notkunar óæskilegra og varasamra efna.

Rétt er að taka það fram að fatnaðurinn einn og sér er í sjálfu sér ekki hættilegur og flest þau föt sem rannsökuð hafa verið innihalda varasöm efni innan hættumarka. En það er þó mikilvægt að þvo föt fyrir notkun og velja vel við kaup. Því þó hver flík innihaldi engöngu lítið magn óæskilegra efna þá komumst við á hverjum degi í snertingu við óteljandi varasöm og skaðleg efni sem hvert fyrir sig er undir hættumörkum,  en í dag er ekki vitað hversu mikil samanlögð áhrif , kallað “kokteiláhrif” þessi efni geta haft á heilsuna.

Heimildir:
https://kemi.taenk.dk/bliv-groennere/toej-vask-kemikalierne-ud-inden-brug
https://samvirke.dk/artikler/vask-kemiresterne-ud-af-dit-nye-toj-for-du-tager-det-pa
http://mst.dk/kemi/kemikalier/saerligt-for-borgere-om-kemikalier/kampagne-gravid-kend-kemien/i-klaedeskabet/