Súkkulaði og berja pizza

Þegar þetta þrennt uppáhalds, súkkulaði, ber og pizza mætist í einu þá er veisla! Fáránlega fljótlegt, einfalt og gómsætt.

Það eina sem þarf í þetta er:
Kanilsnúðadeig í rúllu (má auðvitað nota heimatilbúið)
Súkkulaðismjör, ég mæli með Choco Hazel frá GoodGood
Ber að eigin vali

Kanilsnúðadeginu rúllað út, skellt á bökunarplötu og inn í 185°c heitan ofn í 5-7 mínútur eða þar til það er farið að taka á sig pínu gylltan lit. Á meðan eru berin þvegin og skorin niður. Súkkulaðismjörinu dreift yfir þegar degið kemur út úr ofninum, á meðan það er enn heitt. Berjunum stráð yfir og borið fram. Njótið!

Tilvalið sem fljótlegur eftirréttur, í saumaklúbbinn, barnaafmælið eða bara jafnvel í drekkutíma á sunnudegi.

Færslan er unnin í samstarfi við GoodGood en það en það hefur þó engin áhrif á álit mitt vörunum.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

Heimatilbúinn leir

Börnin mín elska að leira, sérstaklega þau 2 yngstu. Það er svo ótrúlega þægilegt og einfalt að búa leirinn bara til heima, í hvaða  lit sem óskað er eftir, með glimmeri fyrir þá sem það vilja og hann er auðvitað alveg laus við allan óþverra.
Tala nú ekki um hversu miklu ódýrari hann er…..og betri líka!

Þetta tekur án gríns aðeins örfáar mínútur, svo á skömmum tíma er hægt að búa til leir í öllum regnbogans litum.

1/2 dl salt
1 tsk cream of tartar
1/2 bolli hveiti
1/2 bolli vatn
1 1/2 tsk olía
matarlitur
glimmer ef vill (ég nota kökuglimmer)

Þurrefnin sett í pott og blandað vel saman. Matarliturinn settur út í vatnið og bætt út í pottinn á samt olíunni. Þetta er svo allt hrært saman og hitað á miðlungshita. Mikilvægt er að hræra stöðugt í blöndunni. Það geta myndast kekkir en bara merja þá úr með sleifinni og halda áfram að hræra. Blandan þykknar hratt og þegar hún er farin að safnast saman í klump utan um sleifina er klumpnum skellt á bökunarpappír. Mesti hitinn látinn rjúka úr og svo hnoðað örlítið saman og voilà! Tilbúinn leir.

Leirinn er svo geymdur í loftþéttu íláti eða zip lock pokum. Ef hann byrjar að þorna eftir mikla notkun eða hefur staðið of lengi á borði er bara að skella klumpnum undir krannann og bleyta aðeins, hnoða vel saman og þá er hann eins og nýr.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

 

Kókospönnukökur

Þessar pönnukökur eru algjörar uppáhalds og gaman að gera t.d. um helgar þegar gera á vel við sig, geggjaðar hvort sem er í morgunmat, með kaffinu eða sem millimál. Þær innihalda enga óhollustu og því er hægt að njóta þeirra með góðri samvisku, ég tala nú ekki um ef meðlætið með þeim er vel valið líka.

2 egg
1 miðlungsstór vel þroskaður banani
1/2 bolli kókosmjöl
1/2 tsk vanilluduft
Kókosolía til steikingar

Bananinn stappaður og öllu blandað vel saman. Panna smurð með kókosolíu og smá deig sett á pönnuna, dreift aðeins úr með skeið og steikt við miðlungshita í nokkrar mínútur á hvorri hlið þar til fallega gylltar.

Borið fram með t.d. bláberjum, jarðaberjum, hindberjum eða öðrum ávöxtum og góðu sírópi, sultu eða súkkulaðismjöri.

Pönnukökurnar má líka gjarnar stinga í nestisboxið ásamt ávöxtum.

Fyrir nokkru síðan fékk ég að prófa vörurnar frá íslenska fyrirtækinu GoodGood (ég hafði að vísu verið að nota bæði Choco Hazel og Sweet like sugar áður). Vörurnar þeirra eru ekki bara ótrúlega bragðgóðar heldur líka góðar fyrir kroppinn. Þær innihalda engan sykur en notast er við náttúruleg sætuefnin eins og stevíu og sykuralkóhóla á borð við maltitol og erítrítól. Vörurnar hafa miklu minni áhrif á hækkun blóðsykurs en hvítur sykur gerir, og sumar þeirra hækka hann alls ekki. Þessar vörur eru frábærar fyrir þá sem vilja gómsætt bragð en minni óhollustu.

Þetta súkkulaðismjör er dásamlega gott og okkur öllum þykir það betra en hið eina sanna Nutella og þá er nú mikið sagt því börnin mín 2 elstu hreinlega elska það.

Sírópið er líka ótrúlega bragðgott og kemur algjörlega í stað hlynsíróps á pönnukökurnar.

Færslan er unnin í samstarfi við GoodGood en það en það hefur þó engin áhrif á álit mitt vörunum.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

Þvoðu fatnað og rúmföt fyrir notkun!

Nýr fatnaður og rúmföt geta innihaldið leifar af ýmsum óæskilegum efnum sem geta verið skaðleg heilsunni og  umhverfinu. En með eftirfarandi ráðum má minnka áhættuna á því.

Varasöm og óæskileg efni geta verið notuð í textílframleiðslu af ýmsum ástæðum, t.d:
Til að lita efnin eða bleikja þau, mýkja eða gera straufrí.
Fatnaður getur líka innihaldið efni sem eru eldtefjandi, berjast gegn myglu og minnka svitalykt, í nýjum fatanaði má einnig stundum finna leifar af skordýraeitri.

Þessi óæskilegu efni fylgja fatnaði og sængurfötum þegar þau eru keypt og geta valdið ofnæmisviðbrögðum svo sem útbrotum og kláða. Nokkur þessara efna eru grunuð um að geta raskað hormónajafnvægi og jafnvel verið krabbameinsvaldandi.

Leifar þessara óæskilegu efna er hinsvegar hægt að þvo í burtu og eftir 1-2 þvotta er megnið af þeim horfið. En með því minnkar þú þau áhrif sem efnin hafa á húðina.
Það er því er MJÖG mikilvægt að þvo allan nýjan fatnað og sængurföt fyrir notkun.

Þó er ekki hægt að þvo öll óæskileg efni úr nýjum fötum. Þalöt er ekki hægt að þvo í burtu, en það er efni sem notað er til að mýkja PVC plast sem má finna t.d. í regnfatnaði og ýmsum myndum á fatnaði t.d. á bolum. Þalöt geta valdið hormónatruflunum.

Íþróttafatnaður og sokkar geta innihaldið bakteríudrepandi efni á borð við nanósilfur og tríklósan til að draga úr svitalykt. Tríklósan er óæskilegt fyrir umhverfið og leikur grunur á að það geti raskað hormónajafnvægi. Það er því verið æskilegt að sleppa því að kaupa fatnað sem merktur er “lyktarlaus” og “bakteríudrepandi”

Þeir sem vilja forðast þessi óæskilegu efni í fatnað og rúmfötum ættu að velja vörur sem bera umhverfismerki á borð við:
Svaninn
Blómið
Umhverfismerki EBS
GOTS merkið
Oeko-Tex
Allur fatnaður sem ber þessi merki er framleiddur án notkunar óæskilegra og varasamra efna.

Rétt er að taka það fram að fatnaðurinn einn og sér er í sjálfu sér ekki hættilegur og flest þau föt sem rannsökuð hafa verið innihalda varasöm efni innan hættumarka. En það er þó mikilvægt að þvo föt fyrir notkun og velja vel við kaup. Því þó hver flík innihaldi engöngu lítið magn óæskilegra efna þá komumst við á hverjum degi í snertingu við óteljandi varasöm og skaðleg efni sem hvert fyrir sig er undir hættumörkum,  en í dag er ekki vitað hversu mikil samanlögð áhrif , kallað “kokteiláhrif” þessi efni geta haft á heilsuna.

Heimildir:
https://kemi.taenk.dk/bliv-groennere/toej-vask-kemikalierne-ud-inden-brug
https://samvirke.dk/artikler/vask-kemiresterne-ud-af-dit-nye-toj-for-du-tager-det-pa
http://mst.dk/kemi/kemikalier/saerligt-for-borgere-om-kemikalier/kampagne-gravid-kend-kemien/i-klaedeskabet/

Pizzustangir

Þessar eru ótrúlega bragðgóðar og einfaldar í framkvæmd, sérstaklega ef notað er tilbúið pizzudeig, auðvitað er gott að nota heimatilbúið deig í þær, en stundum þarf bara að flýta fyrir sér og fara einföldu leiðina. Það er hægt að leika sér með innihaldið að vild en hér er skotheld útgáfa sem börnin elska.

Pizzadeig (ég notaði tilbúið)
Pizzusósa
Rifinn ostur
Skinka (mæli með 98% frá Stjörnugrís) eða pepperoní, jafnvel bæði eins og ég gerði

Hitið ofninn í 230°c og fletjið degið út í ferning (ég var með pizzadeig í rúllu þannig að ég rúllaði því bara út. Pizzusósu dreift yfir degið nema á kantinn á löngu hliðunum á deginu, osti og skinku eða pepperoní, nú eða bæði. Löngu hliðarnar á deiginu brettar inn að miðju og önnur látin fara aðeins aðeins yfir hina, gott að pensla örlítið með vatni til þess að degið klístrist saman og lokist alveg.
Skerið deigið í 1,5 – 2 cm ræmur á stuttu hliðinni, snúið upp á deigið 5-6 sinnum um leið og togað er í það þannig að stangirnar lengist.
Leggið á plötu og bakið við 230°c á blæstri í 6-8 mínútur, eða þar til stangirnar eru gullnar.

Pizzustangirnar eru tilvaldar í nestisboxið ásamt ávöxtum og grænmeti, amk svona af og til, á afmælisborðið, í lautarferðina eða í partýið sem létt snakk. Það er hægt að hálfbaka þær og skella í frystinn. Grípa svo til þeirra og hita þegar það vantar að græja eitthvað í fljótheitum.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

Kókoskúlur

Kókoskúlur er eitthvað sem flestum þykja góðar, svona passlega stór munnbiti, sætur og ljúfur, eða það þykir okkur hér heima allavega. Hefðbundnar uppskriftir innihalda oftast mikinn sykur svo ég ákvað að prófa mig aðeins áfram með kúlur sem innihalda engan hvítan sykur, aðeins döðlur sem sætu.

Útkoman er ótrúlega góð og þær runnu ljúft niður í heimilisfólkið í gær þessar.

100 g döðlur (Meedjol eru bestar en alveg hægt að nota þurrkaðar líka)
1 1/2 dl haframjöl
1/2 dl kókosmjöl
2 msk hreint kakó
1/4 tsk vanilluduft (hrein vanillukorn, ekki vanillusykur)
1 tsk kókosolía
3 msk vatn
Kókosmjöl til að velt kúlunum uppúr

Ég átti ekki Medjool döðlur svo ég notaði bara þurrkaðar, klippti þær niður í nokkra bita og lagði svo í bleyti í kalt vatn í 30 mínútur, vatninu hellt af og þá eru þær klárar. Öll innihaldsefnin sett í matvinnsluvél og unnið mjög vel saman þar til þetta er orðinn fínn massi.
Kúlur mótaðar og velt uppúr kókosmjöli, sett í kæli í 1-2 tíma og þá eru þær tilbúnar.
Geymast í kæli í vel lokuðu íláti í 2-3 daga

Afþví að þessar innihalda engan hvítan sykur og í raun enga óhollustu þannig lagað (þó þær séu orkumiklar) þá má alveg lauma eins og einni með í nestisboxið fyrir krakkana ásamt grænmeti og öðru hollu nesti svona einu sinni og einu sinni til smá tilbreytingar.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

Kjötbollur

Þegar ég var yngri og heyrði orðið kjötbollur, voru kjötfarsbollur alltaf það fyrsta sem mér datt í hug, enda þekkti ég ekki aðrar en slíkar, ýmist steiktar á pönnu eða soðnar með hvítkáli, þótti þær góðar þá en hef aldrei eldað slíkar sjálf og borða ekki í dag. Þegar ég fluttist til Danmerkur kynntist ég nefnilega alvöru kjötbollum eða “frikadeller” og höldum við mikið upp á slíkar á okkar heimili.

Þessi uppskrift hefur fylgt mér frá því við bjuggum í Danmörku, er ljúffeng og ótrúelga einföld, því bollurnar eru bakaðar í ofni, ekkert snúa vesen á pönnu eða slíkt.

500 g nautahakk (endilega nota alveg hreint hakk)
1/2-1 laukur, fer eftir stærð (ég nota alltaf rauðlauk)
1-2 hvítlauksrif
50 g gulrætur (rifnar)
1 egg
1 dl haframjöl
1/2 tsk salt
1/2 tsk pipar
1/2 tsk Eðalkrydd eða önnur góð kryddblanda

Laukurinn hakkaður mjög smátt, hvítlaukurinn pressaður og gulræturnar rifnar með rifjárni. Öllu blandað vel saman í hrærivél. Mótaðar eru litlar bollur og settar á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Mér finnst best að móta kjötbollur í höndunum, bleyti hendurnar með köldu vatni inni á milli svo það loði minna við hendurnar, en auðvitað er hægt að gera þeað með skeið líka.

Sjálf er ég alltaf hrifnari af litlum og fíngerðum mat framyfir stóran og groddaralegan og móta ég bollurnar því frekar litlar ( rúmlega kirsuberjatómatur á stærð).
Bakað við 180°c á blæstri í uþb. 20 mínútur, fer eftir stærð. Borið fram t.d.með hverskyns kartöflum, sósu og salati.

Það er voða gott að eiga poka af kjötbollum í frystinum og ég hef stundum freistast til að kaupa tilbúnar í poka en þær bara standast aldrei væntingar, hvorki nægilega góðar né með nógu vönduðu innihaldi, því miður inniheldur keyptur tilbúinn matur oft allskyns óþarfa. Þessar henta mjög vel til að eiga í frystinum og grípa til þegar nennan til að elda er lítil eða tíminn er naumur. Þá er tilvalið að baka bollurnar út úr ofninum eftir 15 mínútur og skella í frystinn. Bollurnar eru svo teknar úr frystinum, skellt á plötu og fulleldaðar á 5-10 mínútum við 180°c á blæstri.

Bollurnar eru líka mjög ljúffengar kaldar, í raun alls ekki síðri og henta því vel í nestisboxið í bland við ávexti, grænmeti, brauðmeti eða núðlur t.d.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

Sætkartöflu vöfflur

Þessar vöfflur eru dásamlegar á bragðið og fullkomnar fyrir lilta munna, þær eru passlega mjúkar að innan og örlítið stökkar að utan. Fullar af góðu hráefni, góðar á bragðið, góðar fyrir börn á öllum aldri og fullorðna.

1 bolli hveiti
1/2 bolli heilhveiti
1 bolli hafrarmjöl (sett í blandara/matvinnsluvél og gert fínna)
3 tsk lyftiduft
1 1/4 tsk kanill (ceylon kanill)
1/8 tsk sjávarsalt
2 egg
1 bolli kókosmjólk
1/2 bolli AB mjólk
40 g smjör, brætt
1/2 bolli sæt kartöflu mauk (sætar kartöflur gufusoðnar og maukaðar með smá soðvatni)
3 tsk Sukrin Gold

Byrjað er á að búa til sætkartöflumauk sé það ekki þegar til í ísskápnum, en það er gert með því að flysja sætar kartöflur, skera í smáa bita og gufusjóða í uþb. 20 mínútur eða þar til auðvelt er að stinga í þær með gaffli. Maukað með töfrasprota og smá soðvatni. Látið kólna í ísskápnum.

Blandið vel saman, hveiti, heilhveiti, haframjölinu, lyftidufti, kanil og salti. Hrærið saman við eggjunum, kókosmjólkinni, AB mjólkinni, bræddu smjörinu, sætkartöflu maukinu og Sukrin Gold þar til allt er vel blandað saman.  Látið bíða á meðan vöfflujárnið er hitað.

Ég nota alltaf belgískt vöfflujárn (á reyndar ekkert annað) og finnst það henta fullkomlega í þetta. Það er gott að búa til 2 stærðir af vöfflum, minni sem hentar liltum fingrum og þá set ég bara smá slettu í miðjuna á vöfflujárninu, fyrir stærri vöfflurnar fyrir þau eldri set ég svo vænni slettu eða bara eftir smekk.

Hér sést munur á stærðunum sem ég geri, þessar hægra megin fara vel í litlar hendur.

Vöfflurnar er góðar einar og sér sem fingramatur fyrir lítil börn, með ávöxtum og agave sírópi eða hunangi (fyrir börn sem eru eldri en 12 mánaða) eða jafnvel með smjöri og osti. Um að gera að láta hugmyndaflugið ráða.

Geymast 4 daga i ísskáp og 3 mánuði í frysti. Ég á alltaf svona í frystinum og gríp í, skelli í brauðristina í smá stund og þá eru þær volgar og fínar.

Minnsti minn er alltaf ánægður með þessar vöfflur

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

Sykurlaus hindberjasulta

_MG_9562Ótrúlega einföld og ljúffeng hindberjasulta sem inniheldur engan hvítan sykur, hana má í raun nota með hverju sem er, vöfflunum, pönnukökunum, ristaða brauðinu, ostunum og kexinu, hrökkbrauðinu, út á hafragrautinn eða chia grautinn, í barnasæluna eða bara hvað sem ykkur dettur í hug.

Það er í raun hægt að nota hvaða ber sem er en þar sem hindber eru sérstöku uppáhaldi hjá mínu fólki verða þau alltaf fyrir valinu.

300g frosin hindber
130g döðlur, klipptar í litla bita
1/2 dl vatn

Öllu skellt í lítinn pott og látið sjóða í 20 mínútur, töfrasprotinn settur aðeins ofaní í lokin og allt maukað vel. Sett í sterílar heitar sultukrukkur, lokað og strax í ísskápinn. En ef nota á sultuna í barnasæluna þá er hún bara sett beint úr pottinum á degið.

_MG_9581

Geymist í uþb. 7-10 daga í ísskáp, en það er tilvalið að frysta hana í klakabökkum og taka út einn og einn tening þegar við á.

_MG_9595

Þessum finnst alltaf svo afskaplega erfitt að horfa á matinn og bíða eftir að búið sé að mynda svo hann geti fengið smakk
_MG_9615

Mjög sáttur þegar hann loks fékk vöffluna sína með hindberjasultunni

Banana lummur – barna og fullorðins

Ótrúlega einfaldar, gómsætar og bráð hollar fyrir alla munna heimilisins, tilvaldar í nestisboxið, sem millimál eða þegar komið er heim úr skóla/leikskóla í staðinn fyrir brauðið sem svo oft er leitað í.

1 egg
1 vel þroskaður banani
1 dl haframjöl (ca 30g)
Kanill, ég nota alltaf Ceylon kanil og mæli indregið með honum

Bananinn er stappaður vel, hrært saman við eggið og haframjölið og svo er sett “dash” af kanil, algjört smekksatriði hversu mikið. Steikt á smurðri pönnu (kókosolía, smjör) við meðalhita þar til lumman er föst í sér og svo snúið við og steikt á hinni hliðinni í smá stund. Passlegt að gera t.d. 3 litlar lummur í einu á lítilli pönnu á stærð við pönnukökupönnu, þessu má líka skella í vel smurt vöfflujárn, ég geri það stundum.

Mér finnst persónulega best að borða lummurnar volgar með smjöri og osti, en það má auðvitað setja á þær hvaða álegg sem er. Þær sem verða afgangs geymi ég í endurnýtanlegum plastpoka eða plast íláti, þær má vel borða kaldar en með því að skella þeim í brauðristina í skamma stund verða þær alveg eins og nýjar, volgar og fínar.

Þessar eru í  sérlegu uppáhaldi hjá þeim yngsta á okkar heimili sem sporðrennir þeim eins og ekkert sé, helst með engu….og í þokkabót kallar hann þær kjöt (held að útlitið minni hann á steikt buff eða hamborgarakjöt).

Hugmyndin af uppskriftinni  er í raun sprottin frá uppskriftinni hér að neðan sem ég sá upphaflega snappinu hennar Unnar einkaþjálfara www.unnurola.is  og fékk ég leyfi frá henni til að birt hana hér. Ég geri uppskriftina hennar mjög oft handa sjálfri mér og öðrum á heimilinu. En vegna þess hve yngsti stubburinn minn er hrifinn af þessu og vill borða út í eitt þá lagaði ég hana aðeins til þannig að hún henti ungum börnum betur og er það uppskriftin hér að ofan, en upprunalega útgáfan er full próeteinrík fyrir þau yngstu, amk eins og minn sem borðar þetta daglega og nánast alfarið í staðinn fyrir brauð.

Prótein ríkari útgáfan hennar Unnar er hér og ég hvet ykkur eindregið til að prófa!
2 egg
1 vel þroskaður banani
40 g haframjöl
Kanill

Gert á sama hátt og hér að ofan nema þessa steiki ég í heilu lagi, passar fullkomlega á pönnukökupönnu, smyr með kókosolíu og steiki á miðlungshita í ca 5-6 mín eða þar til lumman er föst í sér, sný við og steiki á hinni hliðinni í uþb 2 mínútur. Það má líka alveg bæta við rúsínum til að fá meiri sætu og þær smakkast frábærlega með hnetusmjöri.

Báðar uppskriftir geymast í 2 daga í vel lokuðu íláti í ísskáp, en þó mjög ólíklegt að til þess komi, svo ljúffengar eru þær 🙂