Pizzustangir

Þessar eru ótrúlega bragðgóðar og einfaldar í framkvæmd, sérstaklega ef notað er tilbúið pizzudeig, auðvitað er gott að nota heimatilbúið deig í þær, en stundum þarf bara að flýta fyrir sér og fara einföldu leiðina. Það er hægt að leika sér með innihaldið að vild en hér er skotheld útgáfa sem börnin elska.

Pizzadeig (ég notaði tilbúið)
Pizzusósa
Rifinn ostur
Skinka (mæli með 98% frá Stjörnugrís) eða pepperoní, jafnvel bæði eins og ég gerði

Hitið ofninn í 230°c og fletjið degið út í ferning (ég var með pizzadeig í rúllu þannig að ég rúllaði því bara út. Pizzusósu dreift yfir degið nema á kantinn á löngu hliðunum á deginu, osti og skinku eða pepperoní, nú eða bæði. Löngu hliðarnar á deiginu brettar inn að miðju og önnur látin fara aðeins aðeins yfir hina, gott að pensla örlítið með vatni til þess að degið klístrist saman og lokist alveg.
Skerið deigið í 1,5 – 2 cm ræmur á stuttu hliðinni, snúið upp á deigið 5-6 sinnum um leið og togað er í það þannig að stangirnar lengist.
Leggið á plötu og bakið við 230°c á blæstri í 6-8 mínútur, eða þar til stangirnar eru gullnar.

Pizzustangirnar eru tilvaldar í nestisboxið ásamt ávöxtum og grænmeti, amk svona af og til, á afmælisborðið, í lautarferðina eða í partýið sem létt snakk. Það er hægt að hálfbaka þær og skella í frystinn. Grípa svo til þeirra og hita þegar það vantar að græja eitthvað í fljótheitum.

Kókoskúlur

Kókoskúlur er eitthvað sem flestum þykja góðar, svona passlega stór munnbiti, sætur og ljúfur, eða það þykir okkur hér heima allavega. Hefðbundnar uppskriftir innihalda oftast mikinn sykur svo ég ákvað að prófa mig aðeins áfram með kúlur sem innihalda engan hvítan sykur, aðeins döðlur sem sætu.

Útkoman er ótrúlega góð og þær runnu ljúft niður í heimilisfólkið í gær þessar.

100 g döðlur (Meedjol eru bestar en alveg hægt að nota þurrkaðar líka)
1 1/2 dl haframjöl
1/2 dl kókosmjöl
2 msk hreint kakó
1/4 tsk vanilluduft (hrein vanillukorn, ekki vanillusykur)
1 tsk kókosolía
3 msk vatn
Kókosmjöl til að velt kúlunum uppúr

Ég átti ekki Medjool döðlur svo ég notaði bara þurrkaðar, klippti þær niður í nokkra bita og lagði svo í bleyti í kalt vatn í 30 mínútur, vatninu hellt af og þá eru þær klárar. Öll innihaldsefnin sett í matvinnsluvél og unnið mjög vel saman þar til þetta er orðinn fínn massi.
Kúlur mótaðar og velt uppúr kókosmjöli, sett í kæli í 1-2 tíma og þá eru þær tilbúnar.
Geymast í kæli í vel lokuðu íláti í 2-3 daga

Afþví að þessar innihalda engan hvítan sykur og í raun enga óhollustu þannig lagað (þó þær séu orkumiklar) þá má alveg lauma eins og einni með í nestisboxið fyrir krakkana ásamt grænmeti og öðru hollu nesti svona einu sinni og einu sinni til smá tilbreytingar.

Kjötbollur

Þegar ég var yngri og heyrði orðið kjötbollur, voru kjötfarsbollur alltaf það fyrsta sem mér datt í hug, enda þekkti ég ekki aðrar en slíkar, ýmist steiktar á pönnu eða soðnar með hvítkáli, þótti þær góðar þá en hef aldrei eldað slíkar sjálf og borða ekki í dag. Þegar ég fluttist til Danmerkur kynntist ég nefnilega alvöru kjötbollum eða “frikadeller” og höldum við mikið upp á slíkar á okkar heimili.

Þessi uppskrift hefur fylgt mér frá því við bjuggum í Danmörku, er ljúffeng og ótrúelga einföld, því bollurnar eru bakaðar í ofni, ekkert snúa vesen á pönnu eða slíkt.

500 g nautahakk (endilega nota alveg hreint hakk)
1/2-1 laukur, fer eftir stærð (ég nota alltaf rauðlauk)
1-2 hvítlauksrif
50 g gulrætur (rifnar)
1 egg
1 dl haframjöl
1/2 tsk salt
1/2 tsk pipar
1/2 tsk Eðalkrydd eða önnur góð kryddblanda

Laukurinn hakkaður mjög smátt, hvítlaukurinn pressaður og gulræturnar rifnar með rifjárni. Öllu blandað vel saman í hrærivél. Mótaðar eru litlar bollur og settar á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Mér finnst best að móta kjötbollur í höndunum, bleyti hendurnar með köldu vatni inni á milli svo það loði minna við hendurnar, en auðvitað er hægt að gera þeað með skeið líka.

Sjálf er ég alltaf hrifnari af litlum og fíngerðum mat framyfir stóran og groddaralegan og móta ég bollurnar því frekar litlar ( rúmlega kirsuberjatómatur á stærð).
Bakað við 180°c á blæstri í uþb. 20 mínútur, fer eftir stærð. Borið fram t.d.með hverskyns kartöflum, sósu og salati.

Það er voða gott að eiga poka af kjötbollum í frystinum og ég hef stundum freistast til að kaupa tilbúnar í poka en þær bara standast aldrei væntingar, hvorki nægilega góðar né með nógu vönduðu innihaldi, því miður inniheldur keyptur tilbúinn matur oft allskyns óþarfa. Þessar henta mjög vel til að eiga í frystinum og grípa til þegar nennan til að elda er lítil eða tíminn er naumur. Þá er tilvalið að baka bollurnar út úr ofninum eftir 15 mínútur og skella í frystinn. Bollurnar eru svo teknar úr frystinum, skellt á plötu og fulleldaðar á 5-10 mínútum við 180°c á blæstri.

Bollurnar eru líka mjög ljúffengar kaldar, í raun alls ekki síðri og henta því vel í nestisboxið í bland við ávexti, grænmeti, brauðmeti eða núðlur t.d.

Sætkartöflu vöfflur

Þessar vöfflur eru dásamlegar á bragðið og fullkomnar fyrir lilta munna, þær eru passlega mjúkar að innan og örlítið stökkar að utan. Fullar af góðu hráefni, góðar á bragðið, góðar fyrir börn á öllum aldri og fullorðna.

1 bolli hveiti
1/2 bolli heilhveiti
1 bolli hafrarmjöl (sett í blandara/matvinnsluvél og gert fínna)
3 tsk lyftiduft
1 1/4 tsk kanill (ceylon kanill)
1/8 tsk sjávarsalt
2 egg
1 bolli kókosmjólk
1/2 bolli AB mjólk
40 g smjör, brætt
1/2 bolli sæt kartöflu mauk (sætar kartöflur gufusoðnar og maukaðar með smá soðvatni)
3 tsk Sukrin Gold

Byrjað er á að búa til sætkartöflumauk sé það ekki þegar til í ísskápnum, en það er gert með því að flysja sætar kartöflur, skera í smáa bita og gufusjóða í uþb. 20 mínútur eða þar til auðvelt er að stinga í þær með gaffli. Maukað með töfrasprota og smá soðvatni. Látið kólna í ísskápnum.

Blandið vel saman, hveiti, heilhveiti, haframjölinu, lyftidufti, kanil og salti. Hrærið saman við eggjunum, kókosmjólkinni, AB mjólkinni, bræddu smjörinu, sætkartöflu maukinu og Sukrin Gold þar til allt er vel blandað saman.  Látið bíða á meðan vöfflujárnið er hitað.

Ég nota alltaf belgískt vöfflujárn (á reyndar ekkert annað) og finnst það henta fullkomlega í þetta. Það er gott að búa til 2 stærðir af vöfflum, minni sem hentar liltum fingrum og þá set ég bara smá slettu í miðjuna á vöfflujárninu, fyrir stærri vöfflurnar fyrir þau eldri set ég svo vænni slettu eða bara eftir smekk.

Hér sést munur á stærðunum sem ég geri, þessar hægra megin fara vel í litlar hendur.

Vöfflurnar er góðar einar og sér sem fingramatur fyrir lítil börn, með ávöxtum og agave sírópi eða hunangi (fyrir börn sem eru eldri en 12 mánaða) eða jafnvel með smjöri og osti. Um að gera að láta hugmyndaflugið ráða.

Geymast 4 daga i ísskáp og 3 mánuði í frysti. Ég á alltaf svona í frystinum og gríp í, skelli í brauðristina í smá stund og þá eru þær volgar og fínar.

Minnsti minn er alltaf ánægður með þessar vöfflur

 

Sykurlaus hindberjasulta

_MG_9562Ótrúlega einföld og ljúffeng hindberjasulta sem inniheldur engan hvítan sykur, hana má í raun nota með hverju sem er, vöfflunum, pönnukökunum, ristaða brauðinu, ostunum og kexinu, hrökkbrauðinu, út á hafragrautinn eða chia grautinn, í barnasæluna eða bara hvað sem ykkur dettur í hug.

Það er í raun hægt að nota hvaða ber sem er en þar sem hindber eru sérstöku uppáhaldi hjá mínu fólki verða þau alltaf fyrir valinu.

300g frosin hindber
130g döðlur, klipptar í litla bita
1/2 dl vatn

Öllu skellt í lítinn pott og látið sjóða í 20 mínútur, töfrasprotinn settur aðeins ofaní í lokin og allt maukað vel. Sett í sterílar heitar sultukrukkur, lokað og strax í ísskápinn. En ef nota á sultuna í barnasæluna þá er hún bara sett beint úr pottinum á degið.

_MG_9581

Geymist í uþb. 7-10 daga í ísskáp, en það er tilvalið að frysta hana í klakabökkum og taka út einn og einn tening þegar við á.

_MG_9595

Þessum finnst alltaf svo afskaplega erfitt að horfa á matinn og bíða eftir að búið sé að mynda svo hann geti fengið smakk
_MG_9615

Mjög sáttur þegar hann loks fékk vöffluna sína með hindberjasultunni

Banana lummur – barna og fullorðins

Ótrúlega einfaldar, gómsætar og bráð hollar fyrir alla munna heimilisins, tilvaldar í nestisboxið, sem millimál eða þegar komið er heim úr skóla/leikskóla í staðinn fyrir brauðið sem svo oft er leitað í.

1 egg
1 vel þroskaður banani
1 dl haframjöl (ca 30g)
Kanill, ég nota alltaf Ceylon kanil og mæli indregið með honum

Bananinn er stappaður vel, hrært saman við eggið og haframjölið og svo er sett “dash” af kanil, algjört smekksatriði hversu mikið. Steikt á smurðri pönnu (kókosolía, smjör) við meðalhita þar til lumman er föst í sér og svo snúið við og steikt á hinni hliðinni í smá stund. Passlegt að gera t.d. 3 litlar lummur í einu á lítilli pönnu á stærð við pönnukökupönnu, þessu má líka skella í vel smurt vöfflujárn, ég geri það stundum.

Mér finnst persónulega best að borða lummurnar volgar með smjöri og osti, en það má auðvitað setja á þær hvaða álegg sem er. Þær sem verða afgangs geymi ég í endurnýtanlegum plastpoka eða plast íláti, þær má vel borða kaldar en með því að skella þeim í brauðristina í skamma stund verða þær alveg eins og nýjar, volgar og fínar.

Þessar eru í  sérlegu uppáhaldi hjá þeim yngsta á okkar heimili sem sporðrennir þeim eins og ekkert sé, helst með engu….og í þokkabót kallar hann þær kjöt (held að útlitið minni hann á steikt buff eða hamborgarakjöt).

Hugmyndin af uppskriftinni  er í raun sprottin frá uppskriftinni hér að neðan sem ég sá upphaflega snappinu hennar Unnar einkaþjálfara www.unnurola.is  og fékk ég leyfi frá henni til að birt hana hér. Ég geri uppskriftina hennar mjög oft handa sjálfri mér og öðrum á heimilinu. En vegna þess hve yngsti stubburinn minn er hrifinn af þessu og vill borða út í eitt þá lagaði ég hana aðeins til þannig að hún henti ungum börnum betur og er það uppskriftin hér að ofan, en upprunalega útgáfan er full próeteinrík fyrir þau yngstu, amk eins og minn sem borðar þetta daglega og nánast alfarið í staðinn fyrir brauð.

Prótein ríkari útgáfan hennar Unnar er hér og ég hvet ykkur eindregið til að prófa!
2 egg
1 vel þroskaður banani
40 g haframjöl
Kanill

Gert á sama hátt og hér að ofan nema þessa steiki ég í heilu lagi, passar fullkomlega á pönnukökupönnu, smyr með kókosolíu og steiki á miðlungshita í ca 5-6 mín eða þar til lumman er föst í sér, sný við og steiki á hinni hliðinni í uþb 2 mínútur. Það má líka alveg bæta við rúsínum til að fá meiri sætu og þær smakkast frábærlega með hnetusmjöri.

Báðar uppskriftir geymast í 2 daga í vel lokuðu íláti í ísskáp, en þó mjög ólíklegt að til þess komi, svo ljúffengar eru þær 🙂

Jarðaberja smoothie

 

Margir smoothie-ar eru eiginlega bara innantóm orka, sérstaklega þeir sem innihalda nánast eingöngu ávexti og standa því ekki sérlega lengi með manni. En þessi er frábrugðinn því hann inniheldur bæði AB mjólk, hafragraut og chia fræ sem gerir hann því sérlega næringarríkan og saðsaman. Hann hentar því vel sem millimál bæði fyrir börn og fullorðna, t.d. fullkominn eftir skóla eða leikskóla í staðinn fyrir “drekkutímann” eða í nesti í skólann, mín börn eru td. mjög hrifin af því að taka þennan með sér í nesti.

2 bollar frosin jarðaber
1 vel þroskaður banani
1 bolli kaldur hafragrautur* eða 1/2 bolli hafrar (mér þykir mikið betra að nota hafragraut)
1 bolli AB mjólk
1 tsk chia fræ (má sleppa)

Allt sett í blandara og blandað vel, lang best að drekka strax en ef það er afgangur er ekkert að því að geyma restina í kæli og njóta síðar.

Í raun inniheldur þessi smoothie allt sem þarf til að uppfylla fullkomna máltíð nema fitu, en það má auðveldlega bæta úr því og smella smá kókos- eða hörfræolíu út í, ég geri það stundum.

Þessi uppskrift hentar vel fyrir 1 fullorðinn og 1 barn eða 2-3 ung börn.

*Mér finnst voða gott að eiga kaldan hafragraut í ísskápnum til að nota t.d. í smoothie, vöfflur, lummur eða bara til að hita upp og borða í amstri dagsins og því elda ég yfirleitt rúmlega á morgnana og á þá graut til að grípa í. Mæli svo sannarlega með því!

 

Tegu

Við fjölskyldan kynntumst Tegu kubbunum fyrst sl. haust þegar við vorum í fríi í USA. Við keyptum einn pakka handa Emil okkar sem þá var rúmlega 1 árs. Ég féll strax fyrir þessum kubbum, hversu fallegir þeir eru og einfaldir en gefa möguleika á leik á svo mismunandi og þroskandi hátt. Þegar ég svo kynnti mér fyrirtækið og sögu þess féll ég enn meira fyrir þeim og setti mig strax í samband við fyrirtækið til að vinna í að fara að flytja þá inn. Það má segja að þetta hafi verið það allra vinsælasta sem keypt var í 3 vikna langri ferð og léku öll börnin sér með kubbana á hverjum degi, 1, 4, 10 og 12 ára það skiptir ekki máli, Tegu kubbarnir eru fyrir alla!

Tegu segulkubbarnir eru fullkomlega öruggir, framleiddir úr harðviði og lakkaðir með 100% eiturefnalausu lakki. Seglarnir eru faldir inni í hverjum kubbi og því hvorki sjáanlegir né hægt að ná til þeirra. Kubbarnir eru margprófaðir eftir öryggisstöðlum og fyllsta öryggis gætt við framleiðsluna. Verksmiðjan er í eigu fyrirtækisins sjálfs og er framleiðslunni því stjórnað algjörlega frá upphafi til enda sem sjaldgæft er þegar kemur að leikföngum.

Tegu segulkubbarnir eru einstök hönnun frá Bandaríkjunum en eru  framleiddir í höfuðborg Hondúras. Hondúras er eitt fátækasta land á vesturlöndum og vildu stofnendur Tegu sem eru bræður að fyrirtæki þeirra gæfi tilbaka til samfélagsins. Þeir ákváðu því frá upphafi að framleiðslan skyldi fara fram í Hondúras og geta þar með veitt fjölda íbúa þar góða vinnu á mannsæmandi launum og þar með tekið þátt í að minnka fátækt.

Þegar þú kaupir Tegu kubba ertu ekki eingöngu að fá frábæra kubba sem stuðla að sköpunargleði og hugsun heldur ertu líka að hjálpa til við að búa til störf sem bætir lífshætti ekki eingöngu þeirra 200 starsmanna sem nú starfa í verksmiðjunni heldur einnig amk 361 fjölskyldumeðlima sem stóla á þá.

Tegu gætir þess að ganga ekki á trjástofn Hondúrar og með hverju seldu kubbasetti styrkja þeir skógræktarsamtök sem sjá til þess að planta nýjum trjám. Þess er gætt að komandi kynslóðir hafi ekki minna af skógum en finna má í dag.

Tegu sendir einnig börn í skóla, með samvinnu við skóla á svæðinu taka þeir þátt í að útrýma fátækt með því að koma börnum af  götunum og inn í skólastofur.

Tegu segulkubbarnir eru því svo miklu miklu meira en bara falleg og frábær leikföng sem stuðla að takmarkalausum leik.

Tegu segulkubbana færð þú HÉR

Barnasæla

_MG_9773

Tengdamamma mín gerir heimsins bestu hjónabandssælu, á því leikur enginn vafi og uppskriftin er mér afar kær, en hún er full af sykri og sykraðri sultu bara svona eins og gengur og gerist með þessar gömlu góðu kökur. Ég ákvað því að nota uppskriftina hennar og búa til aðeins hollari útgáfu sem vel má gefa litlum börnum smakk af án þess þó að fylla þau af sykri. Í stað þess að nota hefðbundna rabbabarasultu eins og venjan er í svona köku bjó ég einnig til sykurlausa sultu, en ég átti rabbabara og afþví allir á mínu heimili hreinlega elska hindber ákvað ég að gera hindberjasultu sem hentar fullkomlega með. Afvþí að uppskriftin var hollustuvædd með börn í huga ákvað ég að kalla þetta barnasælu frekar en hjónabandssælu.

Þetta er nokkuð stór uppskrift sem mætti vel helminga, en mér finnst passa vel að gera eina stóra köku sem fjölskyldan gæðir sér á t.d. yfir helgi og nokkrar í lítil muffins form sem er tilvalið að setja í frysti og geta gripið í eina og eina.

_MG_9754

Hindberjasulta
300g frosin hindber
130g döðlur
1/2 dl vatn

Hindberin sett í lítinn pott ásamt vatninu og döðlurnar klippi ég niður, fyrst endilangt og svo í nokkra bita og út í pottinn. Sjóðið í 20 mínútur og svo set ég töfrasprotann ofan í og mauka aðeins. Sultuna má vel setja í hreinar sultukrukkur og geyma inni í ísskáp og nota sem venjulega sultu á t.d. ristað brauð, vöfflur, pönnukökur, út á hafragrautinn eða chia grautinn, á hrökkbrauð, með ostum eða bara hverju sem ykkur dettur í hug.

_MG_9581

Barnasæla
1 bolli hveiti
1 bollli heilhveiti
1/2 bolli kókosmjöl
1/2 bolli kókospálmasykur
1/2 bolli Erythritol
3 bollar haframjöl
1 tsk matarsódi (ég nota álfrían frá Matarbúri Kaju)
250g smjör, brætt
2 egg

Smjörið brætt á meðan öllum þurrefnunum er blandað saman, smjörinu blandað við og eggjunum síðast. Hrært vel saman. Stærð kökunnar stjórnast alveg af forminu sem notað er, en gott er að miða við það að í botninn fer 2/3 af deigi og svo 1/3 ofan á. Það er líka hægt að gera 2 kökur úr þessu með því  að nota minni form eða muffins eins og ég nefndi hér fyrir ofan.

_MG_9763

Þjappið deiginu vel í kökuform, líka upp kantana,  sykurlaus sulta sett yfir, magn fer í raun eftir smekk, en uppskriftin hér fyrir ofan er akkúrat mátulegt magn. Takið smá klípur af deginu, pressið vel saman og myljiði yfir sultuna. Það er gott að þrýsta deig mulningnum örlítið ofan í sultuna áður en þetta fer í ofninn. Bakað við 180°c á undir/yfirhita í uþb. 20-25 mínútur eða þar til kakan er orðin fallega gullin brún.

Himnesk með ískaldri mjólk og sumir heima hjá mér vilja þeyttan rjóma með sinni sneið!

_MG_9779

Litli minn var ekki lengi að ráðast til atlögu um leið og myndatöku var lokið, honum þykir voða erfitt alltaf að horfa á matinn og mega ekki fá á meðan myndað er….litli gúrmei karlinn minn 🙂

Kókos og súkkulaði granóla

Þetta granóla er í algjöru uppáhaldi á okkar heimli er mjög fljótlegt að búa til og slær allstaðar í gegn.

_MG_9443
3 bollar trölla hafrar
1/2 bolli möndlur, saxaðar
1/2 bolli pecan hnetur, saxaðar
2 msk kakó
1,5 tsk vanilluduft eða 3 tsk vanilludropar
5 msk akasíu hunang*
1 msk kókosolía
4 msk chia fræ
1 bolli kókosflögur
70g dökkt súkkulaði gróft saxað, ég nota suðusúkkulaði

Höfrum, möndlum, pecan hnetum, kakói og chia fræjum blandað vel saman í skál. Hunangið og kókosolían sett á pönnu og hitað þar til vel fljótandi (ef notaðir eru vanilludropar skal setja þá á pönnuna). Hafrablöndunni hellt út á og blandað vel þannig að hunangið og olían hjúpi allt saman. Sett á bökunarpappír á plötu, dreift vel úr og sett í ofn á 150°c (ekki blástur) í 18-20 mínútur, hræra vel í þegar tíminn er hálfnaður. Þegar platan er tekin út úr ofninum er kókosflögunum blandað saman við á meðan granólað er enn heitt. Látið kólna alveg á plötunni og súkkulaðinu blandað saman við.

Geymist í vel lokuðu íláti í allt að 4 vikur, en það hefur aldrei reynt á það á mínu heimili, þetta klárast á nokkrum dögum, svo gott er þetta!

Heima hjá okkur borðum við granólað út á Ab mjólk, en einnig hægt að nota út á gríska jógúrt, skyr eða jafnvel með mjólk fyrir þá sem vilja það.

_MG_9462

_MG_9418

*Vegna þess að uppskriftin inniheldur hunang má ekki gefa börnum undir 1 árs þetta granóla, en hægt er að skipta hunanginu út fyrir agave síróp í sömu hlutföllum og þá mega börn undir 1 árs gjarnan fá líka. Ég tek til hliðar smá hluta áður en er blanda súkkulaðinu við til að eiga fyrir yngsta minn.