Haustið málað

Við elskum að föndra og gerum mikið af því. Hér langar mig til að deila með ykkur hugmynd að einföldu og skemmtilegu haustföndri. Ég gerði þetta með Emil og Ástrós í fyrra og eru myndirnar síðan þá, en við ætlum að gera þetta aftur fljótlega því Ástrós hefur svo oft talað um hversu gaman þetta var.

Það sem þarf:

Laufblöð af öllum stærðum og gerðum
Vatnslit
Pensla
Blöð

Continue reading

London

Eins og einhverjir kannski sáu á Instagram um daginn þá eyddi ég nokkrum dögum í London í lok ágúst og byrjun september og ætla aðeins að segja ykkur frá þeirri ferð og svara um leið þeim helstu spurningum sem mér bárust.

Þetta var í raun dansferð með Dagbjörtu elstu dóttur okkar (14ára) en hún hefur æft dans í að verða 9 ár og stefnir ekki á neitt annað en að verða atvinnudansari. Þetta var í annað sinn sem við mæðgur förum saman í dansferð, en gerðum það einmitt í ágúst í fyrra líka.

Continue reading

Plastlaus september

Plastlaus september er árvekni átak til þess að vekja fólk til umhugsunar um ofgnótt og skaðsemi plasts í umhverfinu og benda á leiðir til að draga úr notkun plasts, þó sérstaklega einnota plasts.

Það er svo sannarlega ástæða til þess að við tökum okkur öll saman og minnkum notkun á einnot plasti því plast endist í þúsundir ára og brotnar niður á mjög löngum tíma, verður þá að örplasti sem er síst betra fyrir umhverfið okkar. Plast er eingöngu hægt að endurvinna í annað plast af lélegri gæðum og það sem ekki skilar sér til endurvinnslu safnast fyrir á urðunarstöðum eða í náttúrunni og veldur skaða um ókomna tíð. Plast endar því miður alltof oft í ám, vötnum og í hafinu en þar dregur það til sín ýmis mengunarefni og getur endað í vef lífvera og þar með í fæðunni okkar. Talið er að árið 2050 verði meira magn af plasti í sjónum en fiski! Þessu þurfum við öll að bregðast við.

Mér finnst þetta frábært átak og hvet ykkur til að kíkja á heimaísðu átaksins, en þar má finna fjöldan allan af ábendingum um aðra kosti en plast og er þetta tilvalið t.d. fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í minnkun á plastnotkun. Bara með því að temja sér þessi nokkru einföldu atriði:

  • Taka með sér fjölnotapoka í búðina
  • Nota tannbursta úr öðrum efnivið en plasti
  • Nota húsbúnað úr postulíni, gleri eða bambus
  • Afþakka plaströr þegar þú færð þér drykk
  • Mæta með þitt eigið kaffimál undi keypta kaffidrykki
  • Forðast matvörur og aðrar vörur sem seldar eru í plastumbúðum

Þá hefur þegar tekið fyrstu skrefin í áttina að plastminni lífstíl og þá eru næstu skref auðveld.

Við fjölskyldan gerum okkar besta í að minnka plastnotkun eftir fremsta megni en auðvitað má alltaf gera betur. Ég ætla einmitt að nýta þetta átak í að taka mig og okkur á og minnka notkunina enn meira til frambúðar.

Til að fagna áttakinu og hvetja ykkur til að taka þátt verða valdar vörur í netversluninni á 25% afslætti út september. Allar eiga þessar vörur það sameiginlegt að vera plastlausar sem og umbúðirnar utan um þær líka. Það þarf engan kóða heldur er verðið með afslættinum á síðunni , vörurnar eru allar merktar “Plastlaus september” og þær er allar að finna fremst vefversluninni.

Vertu memm og minnkum plastið!

 

 

Nestis pizzur

Foccacia og pizza mætast í eitt í þessari uppskrift og útkoman er æðisleg! Þessi uppskrift er stór en hentar vel til að baka úr og setja í frystinn til að eiga í nestisboxið fyrir börnin. Þær bragðast vel bæði heitar og kaldar og hægt að leika sér með áleggið að vild.

Pizzur

4 dl heilhveiti
5 dl hveiti
4 tsk þurrger (1 pakki)
4 dl volgt vatn (37°c)
2 msk ólívuolía
1 tsk gott sjávasalt t.d. Maldon
1 tsk sykur
Pizzu sósa
Rifinn ostur
Skinka
Pepperoni
Góð ólífuolía

Setjið gerið út í vatnið og látið standa nokkrar mínútur þar til froða myndast. Bætið olíu og sykri út í. Hveiti, heilhveiti og salti blandað saman og svo bætt í smátt og smátt út í gerblönduna. Degið hnoðað mjög vel saman og látið hefa sig við stofuhita í amk. 30 mínútur.

Þegar deigið hefur hefast  er því skipt í 32 hluta (færri ef þú vilt hafa pizzurnar stærri) og mótaðar kúlur, þrýstið ofaná með lófanum og teygið út þannig að deigið verði flatt (uþb. 1 cm á þykkt). Leggið á bökunarplötu og látið hefast í nokkrar mínútur.  Þrýstið fingri í deigið 3-4 sinnum til að mynda smá dældir í deigið og dreifið góðri ólífuolíu yfir. Dreifið pizzu sósunni á deigið, stráið rifnum osti yfir og setjð svo pepperoni og skinku ofan á eða annað álegg sem ykkur dettur í hug.

Bakað við 200°c á blæstri í 11-15 mínútur, eða þar til gullið og fallegt. Mjög gott að setja klettasalat og rifin parmesan yfir þegar pizzurnar koma út úr ofninum.

Það er líka hægt að gera hvítlauksbrauð úr þessari uppskrift, merja hvítlauk út í olíuna áður en henni er dreift yfir. Sjávarsalti stráð yfir og bakað eins og fram kemur hér að ofan, mjög gott til að bera fram með mat.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is