Banana og hindberjamauk með vanillu

Ferskt og gott mauk sem er fljótlegt að útbúa.

1 vel þroskaður banani
Nokkur hindber 
1/4 tsk hreint vanilluduft

Ef notuð eru fersk hindber þarf bara að skola þau vel, en ef notuð eru frosin þarf að skella þeim í sjóðandi vatn í 1 mínútu eða gufusjóða í nokkrar mínútur.

Allt maukað saman með töfrasprota eða stappað saman með gaflli fyrir grófari áferð.

Geymist í sólarhring í ísskáp í vel lokuðu íláti og mánuð í fyrsti.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

Sætar kartöflur

 

Sætar kartöflur eru frábærar sem fyrsta fæða barnsins, þær eru næringarmiklar og sæta bragðið sem einkennir þær gerir það auðvelt að kynna þær fyrir barninu þó það sé jafnvel eingöngu 4-5 mánaða gamalt.

Það vefst fyrir sumum hvar og hvernig á að byrja svo hér fylgir er ótrúlega einföld uppskrift sem gott er að byrja á.

Mér finnst auðveldast að gufusjóða þær en það er líka hægt að baka þær heilar í ofni þar til gaffall rennur í gegn þegar stungið er í (uþb. 1-1,5 klst.) og skafa svo innan úr hýðinu og mauka.

2 litlar sætar kartöflur eða 1 stór

Sætu kartöflurnar þvegnar, afhýddar og skornar í teninga, settar í gufusuðusigti og soðnar í 15-20 mínútur eða þar til þær eru mjúkar. Maukað með töfrasprota eða í matvinnsluvél og soðvatninu bætt útí eftir þörfum þar til þeirri áferð sem óskað er eftir  er náð.

Geymist í 3-4 daga í vel lokuðu íláti í ísskáp og 3 mánuði í frysti.

Kjötbollur

Þegar ég var yngri og heyrði orðið kjötbollur, voru kjötfarsbollur alltaf það fyrsta sem mér datt í hug, enda þekkti ég ekki aðrar en slíkar, ýmist steiktar á pönnu eða soðnar með hvítkáli, þótti þær góðar þá en hef aldrei eldað slíkar sjálf og borða ekki í dag. Þegar ég fluttist til Danmerkur kynntist ég nefnilega alvöru kjötbollum eða “frikadeller” og höldum við mikið upp á slíkar á okkar heimili.

Þessi uppskrift hefur fylgt mér frá því við bjuggum í Danmörku, er ljúffeng og ótrúelga einföld, því bollurnar eru bakaðar í ofni, ekkert snúa vesen á pönnu eða slíkt.

500 g nautahakk (endilega nota alveg hreint hakk)
1/2-1 laukur, fer eftir stærð (ég nota alltaf rauðlauk)
1-2 hvítlauksrif
50 g gulrætur (rifnar)
1 egg
1 dl haframjöl
1/2 tsk salt
1/2 tsk pipar
1/2 tsk Eðalkrydd eða önnur góð kryddblanda

Laukurinn hakkaður mjög smátt, hvítlaukurinn pressaður og gulræturnar rifnar með rifjárni. Öllu blandað vel saman í hrærivél. Mótaðar eru litlar bollur og settar á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Mér finnst best að móta kjötbollur í höndunum, bleyti hendurnar með köldu vatni inni á milli svo það loði minna við hendurnar, en auðvitað er hægt að gera þeað með skeið líka.

Sjálf er ég alltaf hrifnari af litlum og fíngerðum mat framyfir stóran og groddaralegan og móta ég bollurnar því frekar litlar ( rúmlega kirsuberjatómatur á stærð).
Bakað við 180°c á blæstri í uþb. 20 mínútur, fer eftir stærð. Borið fram t.d.með hverskyns kartöflum, sósu og salati.

Það er voða gott að eiga poka af kjötbollum í frystinum og ég hef stundum freistast til að kaupa tilbúnar í poka en þær bara standast aldrei væntingar, hvorki nægilega góðar né með nógu vönduðu innihaldi, því miður inniheldur keyptur tilbúinn matur oft allskyns óþarfa. Þessar henta mjög vel til að eiga í frystinum og grípa til þegar nennan til að elda er lítil eða tíminn er naumur. Þá er tilvalið að baka bollurnar út úr ofninum eftir 15 mínútur og skella í frystinn. Bollurnar eru svo teknar úr frystinum, skellt á plötu og fulleldaðar á 5-10 mínútum við 180°c á blæstri.

Bollurnar eru líka mjög ljúffengar kaldar, í raun alls ekki síðri og henta því vel í nestisboxið í bland við ávexti, grænmeti, brauðmeti eða núðlur t.d.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

Sætkartöflu vöfflur

Þessar vöfflur eru dásamlegar á bragðið og fullkomnar fyrir lilta munna, þær eru passlega mjúkar að innan og örlítið stökkar að utan. Fullar af góðu hráefni, góðar á bragðið, góðar fyrir börn á öllum aldri og fullorðna.

1 bolli hveiti
1/2 bolli heilhveiti
1 bolli hafrarmjöl (sett í blandara/matvinnsluvél og gert fínna)
3 tsk lyftiduft
1 1/4 tsk kanill (ceylon kanill)
1/8 tsk sjávarsalt
2 egg
1 bolli kókosmjólk
1/2 bolli AB mjólk
40 g smjör, brætt
1/2 bolli sæt kartöflu mauk (sætar kartöflur gufusoðnar og maukaðar með smá soðvatni)
3 tsk Sukrin Gold

Byrjað er á að búa til sætkartöflumauk sé það ekki þegar til í ísskápnum, en það er gert með því að flysja sætar kartöflur, skera í smáa bita og gufusjóða í uþb. 20 mínútur eða þar til auðvelt er að stinga í þær með gaffli. Maukað með töfrasprota og smá soðvatni. Látið kólna í ísskápnum.

Blandið vel saman, hveiti, heilhveiti, haframjölinu, lyftidufti, kanil og salti. Hrærið saman við eggjunum, kókosmjólkinni, AB mjólkinni, bræddu smjörinu, sætkartöflu maukinu og Sukrin Gold þar til allt er vel blandað saman.  Látið bíða á meðan vöfflujárnið er hitað.

Ég nota alltaf belgískt vöfflujárn (á reyndar ekkert annað) og finnst það henta fullkomlega í þetta. Það er gott að búa til 2 stærðir af vöfflum, minni sem hentar liltum fingrum og þá set ég bara smá slettu í miðjuna á vöfflujárninu, fyrir stærri vöfflurnar fyrir þau eldri set ég svo vænni slettu eða bara eftir smekk.

Hér sést munur á stærðunum sem ég geri, þessar hægra megin fara vel í litlar hendur.

Vöfflurnar er góðar einar og sér sem fingramatur fyrir lítil börn, með ávöxtum og agave sírópi eða hunangi (fyrir börn sem eru eldri en 12 mánaða) eða jafnvel með smjöri og osti. Um að gera að láta hugmyndaflugið ráða.

Geymast 4 daga i ísskáp og 3 mánuði í frysti. Ég á alltaf svona í frystinum og gríp í, skelli í brauðristina í smá stund og þá eru þær volgar og fínar.

Minnsti minn er alltaf ánægður með þessar vöfflur

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is