Nokkrar góðar ástæður fyrir því að búa barnamatinn til heima!

_MG_2038Ég hef oft fengið þá spurningu í gengum tíðina hvers vegna ég sé að standa í þessu “veseni” við að búa til mestallan mat ofan í börnin mín sjálf þegar það er svo auðvelt að grípa tilbúinn mat úr hillum verslana. Svarið má finna hér 🙂

Bragð, lykt, litur og áferð
Heimatilbúinn matur bragðast betur. Það er bara þannig með allan mat, ferskur matur úr gæða hráefnum bragðast betur en matur sem getur staðið á hillu í marga mánuði eða jafnvel ár án þess að skemmast. Barnamauk úr krukku eða skvísu er oftast bæði bragdaufara og miklu sætara en það sem ég geri hérna heima sjálf. Það er yfirleitt mjög þunnt og með alveg slétta áferð (sem hentar börnum sem eru að byrja að borða vel) og liturinn daufari líka. Með því að búa til mauk sjálf er hægt að ráða hversu þykkt það er, hvort það eru kekkir í því osfrv. en það er einmitt mikilvægt að venja börn við mismuandi áferð.

Geymsluþol
Tilbúinn barnamat er oftast hægt að geyma í fleiri fleiri mánuði og allt upp í 2-3 ár. Mér finnst ekki ákjósanlegt að gefa barninu mínu mat sem er eldri en það sjálft

Næringargildi
Til þess að maturinn endist svo mánuðum eða árum skiptir þurfa framleiðendur að hita hráefnin svo gríðarlega mikið að næringarefni tapast í ferlinu.

Þú veist hvað maturinn inniheldur
Með því að búa til matinn sjálf/ur veit ég nákvæmlega hvað er í matnum, engin aukaefni, engin uppfylliefni, ekkert óþarfa vatn. Ég get stjórnað samsetningunni algjörlga, blandað saman ávöxtum og grænmet, kjöti, fiski, bætt við kryddi eða korntegundum, haft matinn þykkan eða þunnan osfrv.

Hráefni
Með því að búa til sjálf get ég valið gæða hráefni, ég reyni að velja íslenkst grænmeti og ávexti eða lífrænt ræktað eftir fremstu getu og án allra aukaefna.

Kostnaður
Ég hef enn ekki reiknað út nákvæman kostnað við heimatilbúinn mat miðað við þann keypta en ég veit fyrir víst að það er MUN ódýrara að búa hann til sjálf frá grunni.

Umhverfið
Mörg framleiðslufyrirtæki kaupa hráefni í Suður- Ameríku þar sem það er ódýrast, flytja það til Asíu þar sem það er verkað í mat og svo er það flutt þaðan í verslanir um allan heim. Með því að velja íslenskt ræktað grænmeti og ávexti (þegar þess er kostur) og útbúa matinn sjálf/ur þá sparast umhverfinu heilmikið eldsneyti sem annars fer í flutning á hráefni. En eins og við vitum eigum við ekki alltaf kost á íslenskt ræktuðu því miður, oft þurfum við að notast við hráefni erlendis frá en með að útbúa matinn sjálf fækkar samt viðkomustöðum hráefnisins og getum við þar með dregið úr mengun.
Umbúðir eru líka annarskonar mengun sem við getum dregið úr. Með því að búa matinn til sjálf og setja hann í endurnýtanlegar umbúðir spörum við umhverfinu heilmikið magn af plasti og annarskonar umbúðum sem annars lenda í ruslinu strax eftir að lokið hefur verið við matinn. Glerkrukkur utan af keyptum barnamat má þó auðvitað endurnýta og hvet ég ykkur til þess.

Ég ber fulla virðingu fyrir þeim sem velja að kaupa tilbúinn barnamat og það er alls ekkert rangt við það, ég geri það stundum sjálf, gríp í skvísu þegar ég er á flakki ef ég hef gleymt að taka með mér úr frystinum. Það er sem betur fer fullt af góðum barnamat á markaðnum í dag, meira segja kominn íslenskur matur sem ég held að sé enn betri kostur en sá erlendi án þess þó að ég hafi prófað hann sjálf. En endilega vandið valið og skoðið merkingar á vörunum vel. Umfram allt gerið það sem virkar fyrir ykkur og barnið ykkar hvort sem það er að elda sjálf eða kaupa tilbúinn mat.

Hreinlæti og geymsla á mat

_MG_0872

Hreinlæti er gríðarlega mikilvægt þegar kemur að því að gefa litlum krílum að borða

 • Allt grænmeti og ávexti þarf að þvo vel, líka það sem á að flysja!
 • Þvo þarf öll áhöld mjög vel með sápu og skola vel.
 • Það er mikilvægt að kæla allan mat eins hratt og hægt er eftir að hann er eldaður.
 • Þegar matur er hitaður aftur upp fyrir barnið er mikilvægt að láta suðuna koma upp til að koma í veg fyrir bakteríumyndun.
 • Geymið matinn ávallt í ílátum sem eru ætluð fyrir mat, helst gler ílátum. Ef þið veljið plast ílát gætið þess þá að þau séu án parabena og annara eiturefna.
 • Hentugt er að búa til mikinn mat í einu og frysta í klakabökkum eða skvísum, en gætið þess að það sé án allra eiturefna.
 • Bíðið með að setja brjóstamjólk/þurrmjólk og fitu í mat sem á að frysta, bætið því úti þegar maturinn er borin fram.
 • Eftir að maturinn er frosinn er hann færður úr klakabökkunum yfir í ílát sem henta til frystingar, gler í lát sem mega fara í frysti eða frystipokar með “zip lock” henta vel.
 • Merkið öll ílát sem fara í frystinn með innihaldi og dagsetningu.
 • Hægt er að geyma barnamatinn í frysti í 2-3 mánuði við amk. -18 gráður.
 • Barnamat sem hefur verið frystur má ALDREI frysta aftur. Klári barnið ekki skal henda afgangnum.
 • Kjöt og fisk skal afþýða í ísskáp. Hægt er að þýða í plastpoka í köldu vatni til að flýta fyrir.
 • Aldrei þýða mat undir heitu vatni vegna bakteríumyndunar.
 • Ekki mælt með að láta matinn þiðna við stofuhita vegna bakteríumyndunar.
 • Ávaxta og gænmetismauk sem á að gefa barninu heitt er best að þýða bara beint í liltum potti eða í örbylgjuofni, þe. það þarf ekki að þýða það fyrst heldur hita beint. Þannig varðveitast bragðið og næringarefnin betur.
 • Ekki sleikja skeiðina sem þú notar til að gefa barninu þínu með, því þá eru meiri líkur á að færa bakteríur úr þínum munni yfir í barnsins sem geta skemmt tennurnar.
 • Ef þú gefur barninu þínu mauk úr skvísu skaltu nota skeið sem skrúfast framan á eða sprauta úr skvísunni í skál eða skeið til þess að bakeríur úr munni barnsins berist ekki í maukið (þetta á við sérstaklega þegar börn eru að byrja að fá mat og borða lítið í einu og geyma á afganginn). Þegar börn eru farin að borða meira í einu og nokkuð vitað fyrirfram að þau muni klára úr skvísunni er tilvalið fyrir þau að drekka/borða beint úr stútnum á henni.
 • Vertu viss um að maturinn smakkist vel  með því að bragða á honum sjálf/sjálfur, en notaðu aðra skeið en barnið þitt.

Barninu gefið að borða í fyrsta sinn

_MG_0877

Þegar þú byrjar að gefa barninu þínu að borða eru hér nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:

 • Best er að barnið sé ekki of svangt og því tilvalið að gefa því t.d. annað brjóstið eða hluta af pelagjöf áður en maturinn er kynntur. Klára svo brjósta/pelagjöf eftir að barnið hefur smakkað matinn.
 • Gott er að þynna matinn með brjóstamjólk eða þurrmjólk til þess að barnið finni bragð sem það þekkir.
 • Til að byrja með eru eingöngu gefnar 1-2 teskeiðar af mat einu sinni á dag í nokkra daga. Eftir það er bætt við einni teskeið til viðbótar í nokkra daga og svo er skammturinn aftur aukinn og svo koll af kolli.
 • Maturinn þarf að vera mjög fínn og þunnur til að byrja með, kekkja og örðulaus. Maturinn er þannig auðmeltari og barninu klígjar síður við honum.
 • Passa þarf að maturinn sé alls ekki of heitur, best er að mæla hitann með að setja mat á innanverðan úlnliðinn. Ef þú finnur ekkert er maturinn mátulega heitur. Maturinn má vera kaldari, en alls ekki heitari.
 • Gefðu barninu úr sér skál, ekki ílátinu sem geyma á matinn í, það er ekki æskilegt að bera bakteríur úr munni barnsins í mat sem á að geyma (þ.e. ef geyma á matinn til næsta dags t.d.)
 • Það getur verið góð hugmynd að dýfa fingri í matinn (hreinum að sjálfsögðu)  og leyfa barninu að sjúga og smakka þannig ef barnið vill ekki opna munninn fyrir skeiðinni.
 • Sama fæðutegundin er gefin nokkra daga í senn til þess að vita hvernig barnið bregst við, hvort ofnæmisviðbrögð eða óþægindi komi fram . Nokkrum dögum síðar er næstu fæðutegund bætt við og gefin ásamt þeirri sem gefin var á undan í nokkra daga og svo koll af kolli.
 • Gott er að kynna nýja fæðutegund í hverri viku því fjölbreytt fæða skiptir mikilu máli hvað hollustu og fjölbreytta næringu varðar.
 • Sum börn vilja drekka örlítið með matnum sínum og þá er gott að gefa þeim vatn að drekka. Gott er að sjóða vatn og blanda svo með köldu þar til það er mátulega heitt, því börnum finnst ískalt vatn ekki gott í fyrstu.
 • Ef barnið er farið að sitja sjálft getur það sjálft gefið til kynna þegar það hefur fengið nóg með því að snúa höfðinu eða reigja sig aftur. Það er mjög mikilvægt að fylgjast með viðbrögðum barnins og virða það þegar þau vilja ekki meira.
 • Sé barnið ekki farið að sitja sjálft er best að sitja með það í fangi sér en gæta þarf þess að gefa þeim ekki of mikið að borða þar sem þau eiga erfiðara með að gefa til kynna að þau hafi fengið nóg, en þau sem farin eru að sitja sjálf.
 • Það er mikilvægt að ekki verða fyrir vonbrigðum þó barnið vilji ekki borða. Þá er bara reynt aftur á morgun
 • Leyfðu barninu að snerta matinn, finna áferðina og lyktina og kynnast honum þannig. Þetta er subbulegt og það verður bara að hafa það, það er nauðsynlegt fyrir börn að fá að “leika” með matinn til þess að læra að borða sjálf.
 • Ef vart verður við ofnæmiseinkenni s.s. niðurgang, útbrot eða uppköst skaltu hætta með þá fæðutegund strax og hafa samband við ungbarnaverndina eða lækni.
 • Við erum fyrirmynd barnanna og þau lesa mikið í svipbrigði okkar. Vertu jákvæð/ur og brostu á meðan þú matar barnið þitt.

Fyrstu fæðutegundirnar

_MG_2018

Barnið er tilbúið fyrir fyrstu ábótina og þá þarf að ákveða hvaða fæðutegund á að byrja á. Hér á landi tíðkast að gefa börnum mildan graut sem fyrstu ábót, en það er líka hægt að byrja á mildu grænmetismauki.

Grautur
Sjálf byrjaði ég að gefa öllum börnunum mínum graut fyrst,  ég bjó til alla grauta frá grunni fyrir fyrstu börnin mín tvö, það er sáraeinfalt og tekur stutta stund og ég hvet þig til þess að prófa. En yngstu tvö börnin mín fengu hins vegar stundum tilbúna ungbarnagrauta í bland við þá heimatilbúnu og ég lagði mikið uppúr að kaupa góða lífræna grauta handa þeim. Ég mæli hiklaust með grautunum frá Woodland Wonders sem ég komst í kynni við snemma á þessu ári  og hefur sá yngsti borðað grautana frá þeim óspart, þeir eru í algjöru upppáhaldi hjá honum enda með eindæmum bragðgóðir og vandaðir. Grautarnir eru væntanlegir í vefverslunina.

Góðir byrjunar grautar:
Maísgrautur
Bókhveitigrautur
Hirsigrautur
Hrísmjölsgrautur

Hægt er að kaupa þessar korntegundir fínmalaðar og búa til grauta sjálfur eða kaupa sem tilbúna ungbarnagrauta.
Grautur sem búinn er til úr maísmjöli, hirsimjöli, hrísmjöli eða bókhveitimjöli hentar vel að gefa sem fyrstu ábót vegna þess að þeir hafa milt bragð og mjúka og kremaða áferð. Þegar barnið hefur vanist þunnum og mjúkum grautum er hægt að byrja að nota flögur í grauta sem gefa grófari áferð.

Gott er að gefa barninu grauta úr mismunandi korni og skipta á milli korntegunda sem eru með og án glútens. Maís, hirsi, rísmjöl og bókhveiti inniheldur ekki glúten, en hafrar (nema sérstakir glútenlausir), rúgur, hveiti og spelt inniheldur glúten.
Ekki er æskilegt að gefa barni graut úr rísmjöli á hverjum degi vegna þess hve stemmandi hann er.

Grænmetismauk
Kartöflur eða sætar kartöflur eru mildar á bragðið og gefa mjúka áferð. Þær metta líka vel og henta því vel sem fyrsta grænmeti sem barninu er gefið og einnig sem grunnmauk með öðru grænmeti. Það er mikilvægt að gefa barninu mismunandi tegundir af grænmeti til þess að örva bragðlauka barnsins. Ekki gefa barninu spínat, rauðrófur, fennel og sellerí fyrr en barnið er orðið eldra 6 mánaða og þá eingöngu í mjög takmörkuðu magni fram yfir 1 árs aldurinn vegna nítrat innihalds.

Ávaxtamauk
Gott er að byrja að gefa barninu máuk úr eplum, perum, banönum eða ferskjum sem hafa milt bragð. Melónur og ber er líka hægt að gefa í litlu mæli, þar sem það eru bragðmeiri ávextir.
Þegar barnið er orðið 6 mánaða má það borða alla ávexti bæði ferska og soðna.

Hægt er að nota ávaxtamauk til að sæta grauta og gefa fjölbreyttara bragð. Líka hægt að gefa sem eftirrétt á eftir grænmetismauki. C vítamínið í ávaxtamaukinu auðveldar líkamanum upptöku járns úr öðrum mat sem barnið borðar. Það er ekki ráðlegt að gefa eingöngu ávaxtamauk sem máltíð, bæði vegna þess að oft inniheldur það ekki næga orku og vegna þess hversu sætt það er á bragðið. En margir telja að það geti orðið til þess að barnið kjósi frekar ávaxtamauk framyfir grænmetismauk.

Ég mæli með að búa til mikið magn af ávaxta- og grænmetismauki í einu og frysta í klakabökkum og skvísum og geyma. Þá er alltaf hægt að grípa einn og einn mola þegar á að gefa barninu að borða eða kippa tilbúinni skvísu úr frystinum þegar farið er á flakk.

Mundu að bæta alltaf við 1 tsk af fitu út í heimagerða grauta og mauk, t.d. hörfræolíu, ólífuolíu, kókosolíu, eða saltlausu smjöri.