Nestis pizzur

Foccacia og pizza mætast í eitt í þessari uppskrift og útkoman er æðisleg! Þessi uppskrift er stór en hentar vel til að baka úr og setja í frystinn til að eiga í nestisboxið fyrir börnin. Þær bragðast vel bæði heitar og kaldar og hægt að leika sér með áleggið að vild.

Pizzur

4 dl heilhveiti
5 dl hveiti
4 tsk þurrger (1 pakki)
4 dl volgt vatn (37°c)
2 msk ólívuolía
1 tsk gott sjávasalt t.d. Maldon
1 tsk sykur
Pizzu sósa
Rifinn ostur
Skinka
Pepperoni
Góð ólífuolía

Setjið gerið út í vatnið og látið standa nokkrar mínútur þar til froða myndast. Bætið olíu og sykri út í. Hveiti, heilhveiti og salti blandað saman og svo bætt í smátt og smátt út í gerblönduna. Degið hnoðað mjög vel saman og látið hefa sig við stofuhita í amk. 30 mínútur.

Þegar deigið hefur hefast  er því skipt í 32 hluta (færri ef þú vilt hafa pizzurnar stærri) og mótaðar kúlur, þrýstið ofaná með lófanum og teygið út þannig að deigið verði flatt (uþb. 1 cm á þykkt). Leggið á bökunarplötu og látið hefast í nokkrar mínútur.  Þrýstið fingri í deigið 3-4 sinnum til að mynda smá dældir í deigið og dreifið góðri ólífuolíu yfir. Dreifið pizzu sósunni á deigið, stráið rifnum osti yfir og setjð svo pepperoni og skinku ofan á eða annað álegg sem ykkur dettur í hug.

Bakað við 200°c á blæstri í 11-15 mínútur, eða þar til gullið og fallegt. Mjög gott að setja klettasalat og rifin parmesan yfir þegar pizzurnar koma út úr ofninum.

Það er líka hægt að gera hvítlauksbrauð úr þessari uppskrift, merja hvítlauk út í olíuna áður en henni er dreift yfir. Sjávarsalti stráð yfir og bakað eins og fram kemur hér að ofan, mjög gott til að bera fram með mat.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

Anans og kókosíspinnar

Allir sem þekkja mig vita að ég hreinlega elska kókos, hann gerir einfaldlega allt betra og í bland við ananans, það gerist varla betra. Um daginn þegar sólin  lét loksins sjá sig langaði mig í einhverja frískandi og góða íspinna og skellti í þessa. Útkoman er ótrúlega góð og þeir kitla bragðlaukana á skemmtilegan hátt.

1 dós kókosmjólk (ekki fituskert) sem er búin að vera í ísskáp í amk yfir nótt
2 bollar vel þroskaður ferskur ananas 
1/2 tsk vanilludropar

Ég á alltaf kókosmjólk í ísskápnum því stundum vil ég eingöngu nota rjómann úr dósinni, en þegar kókosmjólkin er sett í kæli harðnar fitan í henni og skilur sig frá vökvanum. Ég geymi dósirnar á hvolfi og sný þeim svo við áður en ég opna því þá er vökvinn efst í dósinni.

Þegar kókosmjólkin er búin að vera í kæli yfir nótt er dósin opnuð og vökvanum hellt frá, geymið vökvann, hann hentar mjög vel í smoothie.Skolið ananasinn vel, takið utan af honum og skerið. í bita. Þegar búið er að taka frá 2 bolla er tilvalið að nota afganginn í nestiboxið fyrir krakkana, sem nasl eða frysta til að eiga í smoothie

Kókosrjóminn, ananasinn og vanilludropar settir í blandara og blandað vel, helt í íspinnaform og fryst í amk. 4 klst (fer eftir stærð íspinnanna).

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

Smoothie

Við gerum smoothie alveg ótrúlega oft í allskonar útgáfum, og það er alltaf rétti tíminn fyrir smoothie, hvort sem það er í morgunmat, hádegismat, millimál, eftirrétt eða jafnvel stundum í kvöldmat. Smoothie sem er vel samsettur gefur nefnilega helling af orku og næringu. Smoothie er í raun leynivopnið mitt til að koma næringu í börnin þegar þau eru lystarlaus t.d. þegar þau eru lasin. Það kemur líka alveg fyrir að þessi elstu séu á hraðferð á morgnana og stundum hafa þau litla lyst snemma á morgnana og þá er þessi tilvalinn til að skella í sig, þau taka líka stundum svona með sér í nesti í skólann.

Þessi hér er ótrúlega ferskur og góður, hafrarnir gefa fyllingu í magann og trefjar, hamp- og chia fræin veita omega 3 og 6 fitusýrur ásamt andoxunarefnum og vítamínum. Skyrið gefur gott prótein og berin og anansinn eru rík af c vítamíni.

1 bolli frosin jarðaber
1/2 bolli frosin hindber
1/2 bolli frosinn ananas
1/2 bolli skyr (ég nota hreint)
1/4 bolli haframjöl eða 1/2 bolli kaldur hafragrautur
1 msk hampfræ
1 tsk chia fræ
5-6 dropar vanillustevía t.d. frá GoodGood (má sleppa en er gott á móti súru skyrinu)
1/2 bolli eplasafi

Allt sett í blandara og blandað vel.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

Morgunverðar kleinuhringir

Kleinuhringir í morgunmat? Já afhverju ekki!….það má alveg þegar þeir eru stútfullir af orku og næringu eins og þessir. Þeir eru flottir á bröns borðið, sem millimál, eftirréttur eða í barnaafmælið.

Granóla

1 1/2 bolli tröllahafrar
Lúka af kókosflögum
1/8 tsk kanill
3 msk Sweet Like Syrup frá Good Good
1 msk kókosolía
1 tsk vanilludropar
Frostþurrkuð jarðaber eða hindber (má sleppa)

Blandið höfrum og kanil saman í skál, myljið kókosflögurnar aðeins og bætið saman við.
Setjið sírópið, kókosolíuna og vanilludropana á pönnu á rúmlega miðlungshita  og hrærið þangað til að allt er bráðnað saman. Hellið þurrefnunum út á pönnuna og blandið öllu vel saman. Lækkið aðeins hitann og leyfið blöndunni að ristast í uþb. 10 mín eða þar til granólað er ljós gullið, en hrærið reglulega í  á meðan svo ekkert brenni við.
Hellið á bökunarpappír og látið kólna alveg. Blandið frostþurrkuðum jarðaberjum eða hindberjum saman við eða jafnvel rúsínum, mórberjum eða hverju sem ykkur dettur í hug.

Skyrblanda

3 dl hreint skyr
1 msk Sweet Like Syrup frá Good Good
1/4 tsk vanilludropar
2 msk Jarðaberjasulta frá Good Good
2 msk Bláberjasulta frá Good Good
Spirulinaduft á hnífsoddi (má sleppa)

Hrærið vel saman skyri, sírópi og vanilludropum og skiptið blöndunni jafnt í 3 skálar. Bætið svo jarðaberjasultunni í eina skál og bláberjasultu í aðra og hrærið hverja blöndu fyrir sig vel saman. Ef þið viljið ná fram ljósgræna litnum er sett örlítið af spirulina dufti í þriðju skálina og hrært vel, annars má alveg sleppa því og hafa bara hvítt.

Dreifið dálitlu af granóla í kleinuhringjaform eða mini muffins form, og setjið svo til skiptis skyrblöndu úr hverri skál til að fylla upp í hvert hólf. Sett í frysti í amk 3 klst.

Gott að bera fram með ferskum ávöxtum. Afgangurinn af granólanu geymist í vel lokuðu íláti í nokkrar vikur og gott að njóta út á AB mjólkina, skyrið eða smoothieskálina.

Færslan er unnin í samstarfi við GoodGood en það en það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum.

 

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is