Smoothie

Við gerum smoothie alveg ótrúlega oft í allskonar útgáfum, og það er alltaf rétti tíminn fyrir smoothie, hvort sem það er í morgunmat, hádegismat, millimál, eftirrétt eða jafnvel stundum í kvöldmat. Smoothie sem er vel samsettur gefur nefnilega helling af orku og næringu. Smoothie er í raun leynivopnið mitt til að koma næringu í börnin þegar þau eru lystarlaus t.d. þegar þau eru lasin. Það kemur líka alveg fyrir að þessi elstu séu á hraðferð á morgnana og stundum hafa þau litla lyst snemma á morgnana og þá er þessi tilvalinn til að skella í sig, þau taka líka stundum svona með sér í nesti í skólann.

Þessi hér er ótrúlega ferskur og góður, hafrarnir gefa fyllingu í magann og trefjar, hamp- og chia fræin veita omega 3 og 6 fitusýrur ásamt andoxunarefnum og vítamínum. Skyrið gefur gott prótein og berin og anansinn eru rík af c vítamíni.

1 bolli frosin jarðaber
1/2 bolli frosin hindber
1/2 bolli frosinn ananas
1/2 bolli skyr (ég nota hreint)
1/4 bolli haframjöl eða 1/2 bolli kaldur hafragrautur
1 msk hampfræ
1 tsk chia fræ
5-6 dropar vanillustevía t.d. frá GoodGood (má sleppa en er gott á móti súru skyrinu)
1/2 bolli eplasafi

Allt sett í blandara og blandað vel.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

Morgunverðar kleinuhringir

Kleinuhringir í morgunmat? Já afhverju ekki!….það má alveg þegar þeir eru stútfullir af orku og næringu eins og þessir. Þeir eru flottir á bröns borðið, sem millimál, eftirréttur eða í barnaafmælið.

Granóla

1 1/2 bolli tröllahafrar
Lúka af kókosflögum
1/8 tsk kanill
3 msk Sweet Like Syrup frá Good Good
1 msk kókosolía
1 tsk vanilludropar
Frostþurrkuð jarðaber eða hindber (má sleppa)

Blandið höfrum og kanil saman í skál, myljið kókosflögurnar aðeins og bætið saman við.
Setjið sírópið, kókosolíuna og vanilludropana á pönnu á rúmlega miðlungshita  og hrærið þangað til að allt er bráðnað saman. Hellið þurrefnunum út á pönnuna og blandið öllu vel saman. Lækkið aðeins hitann og leyfið blöndunni að ristast í uþb. 10 mín eða þar til granólað er ljós gullið, en hrærið reglulega í  á meðan svo ekkert brenni við.
Hellið á bökunarpappír og látið kólna alveg. Blandið frostþurrkuðum jarðaberjum eða hindberjum saman við eða jafnvel rúsínum, mórberjum eða hverju sem ykkur dettur í hug.

Skyrblanda

3 dl hreint skyr
1 msk Sweet Like Syrup frá Good Good
1/4 tsk vanilludropar
2 msk Jarðaberjasulta frá Good Good
2 msk Bláberjasulta frá Good Good
Spirulinaduft á hnífsoddi (má sleppa)

Hrærið vel saman skyri, sírópi og vanilludropum og skiptið blöndunni jafnt í 3 skálar. Bætið svo jarðaberjasultunni í eina skál og bláberjasultu í aðra og hrærið hverja blöndu fyrir sig vel saman. Ef þið viljið ná fram ljósgræna litnum er sett örlítið af spirulina dufti í þriðju skálina og hrært vel, annars má alveg sleppa því og hafa bara hvítt.

Dreifið dálitlu af granóla í kleinuhringjaform eða mini muffins form, og setjið svo til skiptis skyrblöndu úr hverri skál til að fylla upp í hvert hólf. Sett í frysti í amk 3 klst.

Gott að bera fram með ferskum ávöxtum. Afgangurinn af granólanu geymist í vel lokuðu íláti í nokkrar vikur og gott að njóta út á AB mjólkina, skyrið eða smoothieskálina.

Færslan er unnin í samstarfi við GoodGood en það en það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum.

 

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

Pizzu vöfflur

Skemmtileg tilbreyting við hefðbunda pizzu sem á heima á afmælisborðinu, í nestisboxinu ásamt  ávöxtum og grænmeti, í lautarferðinni eða hvar sem er.

Einfaldar og bragðgóðar sem hægt er að grípa með sér, ljúffengar bæði heitar og kaldar. Það er hægt að leika sér með fyllinguna að vild t.d. gott að setja eldaðan kjúkling sem gerir þetta næringar- og matarmeira, grænmeti, ferskan mozzarellaost og ferska tómata eða hvað sem ykkur dettur í hug, en þessi útgáfa er einföld og eitthvað sem fellur í kramið hjá flestum.

Pizzudeig
Pizzusósa
Rifinn ostur
Skinka
Pepperóní

Ég notaði tilbúið deig í rúllu, flatti það aðeins þynnra út en það kemur og svo skar  ég út hæfilega stóra hringi sem passa í vöfflujárnið mitt, en ég nota belgískt vöfflujárn.  Sósa, ostur og álegg sett á annan hringinn, hinn hringurinn settur ofan á og kantarnir pressaðir vel saman svo lokist vel, það getur verið gott að pensla kantana á neðri hringnum með smá vatni til að hringirnir límist vel saman.

Sett í vöfflujárnið og bakað í 6-7 mínútur eða þar til vöfflurnar eru gullnar og fallegar á litinn.

Fínt að eiga í ísskápnum og skella í brauðristina eða hita í örbylgunni.

Afskurðinn meðfram hringjunum penslaði ég með olíu, kryddaði með hvítlaukssalti og pipar, sneri uppá svo úr uðu einhversskonar stangir, setti á pökunarplötu og stráði rifnum osti yfir, inní ofn í nokkrar mínútur og úr urðu þessar fínu hvítlauks brauðstangir. En það er auðvitað hægt að hafa vöfflurnar bara ferkantaðar, fljótlegra og enginn afskurður.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

Unicorn íspinnar


Ég kalla þessa fallegu íspinna unicorn pinna afþví litirnir í þeim minna á þemaliti einhyrninga. Þessir eru hollir og góðir til að kæla sig aðeins á sólríkum sumardögum,  sóma sér vel í barnaafmælinu, í eftirrétt hvaða dag vikunnar sem er og þá má meira segja borða í morgunmat, svo hollir eru þeir!

3 dl hreint skyr
1 msk Sweet Like Syrup frá Good Good
10 dropar Vanillu stevia frá Good Good (má sleppa)
1/4 tsk vanilludropar
2 msk sykurlaus jarðaberjasulta frá Good Good
2 msk sykurlaus bláberjasulta frá Good Good
2 msk sykurlaus aprikósusulta frá Good Good
Spirulina duft á hnífsoddi

Hrærið vel saman skyri, sírópi, stevíu og vanilludropum og skiptið blöndunni jafnt í 4 skálar. Bætið svo jarðaberjasultunni í eina skál,  bláberjasultu í aðra, aprikósusultunni í þá þriðju og hrærið hverja blöndu fyrir sig vel saman. Ef þið viljið ná fram ljósgræna litnum er sett örlítið af spirulina dufti í síðustu skálina og hrært vel, annars má alveg sleppa því og hafa bara hvítt.

Teskeið af hverri blöndu sett til skiptis í íspinnaform þar til það er fullt og íspinnaprik sett í. Fryst í amk 6 klst.

Ég notaði íspinnamót úr sílikoni sem ég keypti í Allt í köku, þau eru frekar lítil en mér finnst það mikill kostur, oft eru íspinnamót svo stór og pinnarnir verða því voða stórir og sérstaklega börn geta ekki klárað, en þessir eru fullkomin stærð.

Færslan er unnin í samstarfi við GoodGood en það en það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is