Lítið gull
Það var á sunnudegi i maí sem ég renndi yfir Facebook-ið mitt svona eins og gengur og gerist og sá þá að einn af mínum vinum hafði deilt “status”. Sá “status”var hróp á hjálp, hjálp til allra sem gátu veitt einhverjar upplýsingar og verið vakandi fyrir tölvubúnaði og myndavél sem hafði verið stolið frá ungu pari. Tölvurnar og myndavélin voru svo sem ekki það versta heldur það sem það hafði að geyma. 10 dögum áður en einhver óprúttinn braut sér leið inn á heimili þeirra og fór þar í gegnum dótið þeirra og hafði burt með sér áður nefnda hluti hafði nefnileg mesti gleðidagur þess unga pars runnið upp, þau eignuðust dóttur, yndislega dóttur. Eins og flestir ef ekki allir nýbakaðir foreldrar voru þau dugleg að taka myndir enda eru þetta minningar sem fólk vill seint gleyma. Allar þær myndir sem þau höfðu tekið bæði í fæðingunni sjálfri og þessa fyrstu 10 daga dóttur sinnar voru geymdar á þessum tölvum og sumar enn á myndavélinni sem teknar voru. Ég fékk sting í hjartað, því það dýrmætasta sem ég á fyrir utan auðvitað fólkið mitt eru einmitt myndirnar mínar, myndirnar af börnunum mínum og fjölskyldu.
Ég hugsaði um þetta allan þennan dag og gat ekki sofnað um kvöldið því ég hugsaði svo mikið um hversu hræðilegt það væri ef ég myndi tapa myndunum mínum. Það sem meira er að ég átti mjög auðvelt með að setja mig í þess spor því yngsta dóttir mín var rétt 3 mánaða gömul og ég gat ekki ímyndað mér hversu sárt mér þætti að tapa myndunum af fæðingu hennar og fyrstu dögum ævinnar. Ég hugsaði og hugsaði og ákvað að lokum að ég hreinlega yrði að gera eitthvað þó ég gæti auðvitað ekkert gert. Morguninn eftir renndi ég svo yfir dagblöðin á netinu og á einni vefsíðunni var einmitt frétt um þetta og þá stóð ég upp náði í símann og hringdi í númerið sem fylgdi fréttinni, númerið átti að hringja í ef maður byggi yfir einhverjum upplýsingum. Ég hringdi og bauð þeim að koma í myndatöku með litla gullið sitt, ekki það myndi bæta þeim skaðann á neinn hátt, en þau fengju þó fallegar myndir og mér leið einhvern veginn ögn betur sjálfri.
Þau komu svo með hana örfáum dögum síðar, hún var þá 15 daga gömul. Hún var nú alls ekkert á því að sofa neitt sérstaklega mikið fyrir mig en ég náði þó fullt af sætum myndum af henni þegar hún loksins gaf sig og lognaðist útaf.
“æ þetta er nú samt nett þreytandi”
Að lenda í því að fá einhvern óboðinn inn á sitt heimili, sinn griðastað hlýtur að vera skelfileg lífsreynsla og ég get ekki ímyndað mér hvernig sú tilfinning er. En elsku þið ég vona svo sannarlega að myndirnar ykkar dúkki einhverntímann upp og að ykkur líði vel á heimilinu ykkar þrátt fyrir allt.