Ýmislegt

Áramótaheitin

Ég strengdi áramótaheit, eða öllu heldur setti mér markmið fyrir árið 2013, ég settist niður seint eina nóttina milli jóla og nýárs með penna og bók og skrifaði þau öll niður. Þar kenndi ýmissa grasa, þetta klassíska með að bæta sig sem manneskja, setja heilsu og hollustu í forgang og þar fram eftir götunum. Ég setti mér líka það markmið að vera duglegri að mynda börnin mín, ég tek fullt af myndum af þeim það er ekki það en mig langar að taka meira af myndum af þeim í daglegu amstri heldur en í stúdíóinu. Ég ákvað því að taka mynd á dag amk. í janúar. Ég er búin að taka mynd á hverjum degi en hef engan tíma haft til að fara í gengum þær, er enn að reyna að ná í skottið á sjálfri mér og vinna upp það sem ekki náðist að klára í annríkinu fyrir jólin. Þegar tími gefst til sem verður vonandi mjög fljótlega mun ég skella nokkrum myndum hingað inn.  Þið fáið reyndar að sjá myndina fyrir annan dag ársins, en þá á strákurinn minn afmæli og varð 6 ára. Hann prýddi því mynd dagsins 2.janúar

Það voru líka hlutir á listanum mínum eins og að vera duglegri að setja inn sýnishorn hingað og á Facebook jafn óðum í stað þess að þurfa að vinna upp hálft ár eins og er að fara að gerast núna á næstu dögum. Það er líka nýtt blogg í smíðum og hver veit nema ný heimasíða líti dagsins ljós. En best að snúa sér að því að koma inn sýnishornum frá 2012 og gera það ár upp svo hægt sé að setja 2013 myndir inn jafnóðum, vonandi amk.