Vinavika – Hanna vinkona
Við Hanna kynntumst í leikskóla, lékum okkur saman þar og vorum í pössun á sama stað fyrir hádegi áður en við fórum í leikskólann (þá voru börn annaðhvort fyrir eða eftir hádegi í leikskóla en ekki allan daginn eins og núna). Ég á enn ýmsar góðar minningar frá þessum tíma þegar við vorum 4-5 ára og við höfum verið vinkonur síðan. Við vorum saman í 1. bekk og eitthvað uppúr, en Hanna flutti út á land með foreldrum sínum í nokkur ár, við heimsóttum hvora aðra af og til og svo loksins kom hún aftur í Hafnarfjörðinn og aftur í skólann okkar. Sumarið eftir fermingu fórum við tvær saman til Mallorca í 3 vikur og áttum ógleymanlegan tíma þar. Annars vorum við þrjár, ég Hanna og María mjög mikið saman. Eftir 10. bekkinn flutti Hanna svo aftur út á land þannig að við fjarlægðumst hvora aðra á þeim tíma og eftir menntaskólann flutti ég erlendis. Það hafa því liðið mánuðir og jafnvel ár þar sem við höfum hvorki hist né talað saman. Í dag hittumst við ekki oft, og það er eiginlega synd hversu sjaldan það er.
En það breytir engu þótt langt líði á milli, þegar við hittumst þá er alltaf eins og við höfum hist í gær og það kalla ég sanna vináttu.
Takk elsku Hanna fyrir að vera vinkona mín og allar þá frábæru stundir sem við höfum átt saman síðastliðin gazillion ár.
Gróf upp gamlar myndir frá hinum ýmsu tækifærum
Við gátum og getum enn hlegið mikið saman, Mallorca 1993
Skíðaferðalag með 10.bekk 1995
Á leið í skíðaferðalag með 10.bekk 1995
Betri vinkonur væri ekki hægt að hugsa sér, 1995
Hanna og Lalli á brúðkaupsdaginn þeirra 2005
Glæsileg á brúðkaupsdaginn, ég einmitt saumaði brúðarkjólinn hennar og slörið og að fá að gera það fyrir vinkonu sína er ótrúlega mikill heiður
Síðan hefur fjölgað og Lára María bættist í hópinn, tekið í september 2010
Piparkökubakstur með börnunum okkar í desember 2010, hefð sem er pottþétt komin til að vera