Vinavika – Aðalbjörg
Þegar við fluttum í Vogana fyrir 5 árum þekktum við engan þar, ekki hræðu. Við fluttum í lítið fjölbýlishús og í íbúðinni við hliðina á bjó stelpa á mínum aldri sem átti lítinn strák á aldur við Dagbjörtu. Dag einn spjölluðum við aðeins saman og uppfrá því spratt góð vinátta. Það fór að vera töluverður samgangur á milli okkar Aðalbjargar og börnin okkar léku sér oft og mikið saman.
Eftir að hafa búið þarna í rúm tvö ár vorum við Diddó farin að líta í kringum okkur eftir húsi, og fundum raðhús þarna í bænum sem okkur leist vel á, þau voru tvö til sölu, hlið við hlið. Það fór svo að við keyptum annað og Aðalbjörg og hennar maður hitt þannig að þrátt fyrir flutninga búum við enn hlið við hlið. Samgangurinn er meiri og vináttan sterkari.
Aðalbjörg er ein af þeim sem er alltaf tilbúin til að rétta fram hjálparhönd og það er alveg sama við hvað. Hún hefur oft oft oft passað börnin mín þegar mikið var að gera í skóla eða í vinnunni og reddar mér með að sækja í skóla og leikskóla ef ég er föst í verkefnum úti í bæ. Eftir svefnlausar nætur í jólaösinni hefur hún farið með börnin í skóla og leikskóla ef Diddó hefur ekki haft tök á því svo ég geti hvílt mig aðeins. Hún hefur aðstoðað mig við myndatökur og fyrir síðustu jól sat hún hjá mér dag eftir dag, raðaði í albúm, gekk frá jólakortum og pöntunum. Ómetanleg hjálp og það er frábært að eiga svona góða vini sem vilja allt fyrir mann gera.
Takk elsku Aðalbjörg fyrir alla hjálpina með allt, sama hvað er þú ert alltaf til staðar.
Það fylgja nokkrar myndir með, reyndar ekki til neina mynd af okkur saman, en ég á slatta af gaurunum hennar
Dagbjört mín og strákurinn hennar í eitt af þeim mörgu skiptum sem þau léku sér saman, sumarið 2007
Í september 2007 bættist annar sonur við, hér er hann pínu pons rétt sólarhrings gamall
Þriðji sonurinn fæddur, það var hringt í mig um miðja nótt, örfáum mínútum eftir hann fæddist til að fá mig til að taka myndi. Ég stökk yfir og hann var svo nýr að það var ekki einu sinni búið að skilja á milli. Ótrúlega magnað að fá að upplifa svona stund með vinum sínum.
Gullmolarnir þrír allir saman sumar 2010