Myndin sem varð næstum því aldrei til
í gær þegar ég sat í bílnum ásamt börnunum að skutla þeirri elstu á dansæfingu spurði hún hvort ég vildi taka mynd af mér og henni þegar við kæmum heim með “myndavélinni þarna þar sem myndin kemur beint upp úr” AKA Fuji Instax. Ég sagði bara “jájá við getum gert það” en innst inni hugsaði ég…ohh vonandi gleymir hún þessu bara um leið og ég hugsaði um útganginn á mér. Yoga buxur og bolur, hettupeysa og ballerínuskór, ekki búin að þvo hárið né greiða þann daginn og það í einum flókahnút aftan á hausnum fyrir nú utan það að það er löngu kominn tími á strípur. Alveg ómáluð og já bara myglan einhvern veginn uppmáluð….svoleiðis eru bara sumir dagar.
Ég er nefnilega eins og svo margar aðrar konur og sjálfsagt menn líka, ég forðast það að láta taka myndir af mér eins og heitann eldinn. Í hvert sinn sem einhver gerir sig líklegan tlil að taka af mér mynd þá hugsa ég “ó nei….ég myndast asnalega og illa, er kjánaleg, þarf að taka mig á í ræktinni, missa fullt af kílóum, láta laga hárið , mála mig, vera í finni fötum osfrv.osfrv. Ég er ótrúlega lunkin við að koma mér undan og því eru sárafáar myndir til af mér.
Á leiðinni heim úr dansi spyr hún aftur hvort ég geti ekki örugglega tekið mynd af okkur saman og ég svara “jújú en samt ekki strax því fyrst þurfið þið bróðir þinn að læra, ég þarf að koma honum á júdó æfingu og gefa litlu systur ykkar að borða” hún svarar “það er allt í lagi við getum bara gert þetta seinna í kvöld”. Ó nei ég er ekkert að losna út úr þessu hugsa ég með sjálfri mér en held þó áfram að vona.
Eftir að heim var komið og búið að gera allt sem talið var upp hér á undan ásamt því að borða kvöldmat og sitthvað fleira segir hún einu sinni enn “mamma manstu þú ætlaðir að taka mynd af okkur saman”……..oh ég get ekki svikið barnið hugsa ég um leið og ég segi við hana “en langar þig eitthvað í mynd af mér svona, ég er eitthvað svo ekkert fín”? en hún svarar um hæl “jú mamma þú ert víst bara fín, komdu nú” . Ég sæki myndavélin, hóa í pabbann og bið hann að smella af einni mynd í einum grænum því hann er á leiðinni að baða þá minnstu og miðjuna og ég á leið út í búið eftir mjólk áður en búðin myndi loka 10 mínútum síðar. Ég tek utan um hana, hann smellir af og upp kemur myndin, Dagbjört tekur hana alsæl og fer inn í hebergi. Ég stekk út í búð og nokkrum mínútum síðar þegar ég kem heim biður þetta mín
Um leið og ég þerraði tárin sem láku niður kinnar mínar og knúsaði stelpuna mína í þakklætisskyni þá rann þetta upp fyrir mér: Börnin mín vilja ekki mömmu sem er eins og súpermódel með óaðfinnanlegan líkama, aldrei með dökka rót og alltaf með vel greitt hár og flott makeup alla daga, þeim er alveg sama hvernig ég lít út.
Þau vilja mömmu sem elskar þau skilyrðislaust, mömmu sem knúsar þau þegar þeim líður illa, kemur þeim til hjálpar, huggar þau þegar þau gráta, hvetur þau áfram, veitir þeim öryggi, leikur við þau og er til staðar fyrir þau.
Þau vilja mömmu
Þau vilja MIG eins og ég er!
Frá og með NÚNA ætla ég að leggja mig fram við að vera oftar með á myndum, sérstaklega með börnunum mínum því við vitum aldrei hvenær okkar tími kemur, það gæti orðið eftir áratugi en það gæti líka orðið á morgun. Þó mig langi ekkert sérstaklega að skoða myndir af mér er það þá rétt gagnvart börnunum mínum að forðast myndavélina? Nei því að sjálfsögðu vil ég að börnin mín geti skoðað myndir af okkur saman seinna meir og þau munu ekki spá í fötum, hári eða aukakílóum, amk. geri ég það ekki þegar ég skoða myndir af mér með mömmu minni.
Það sem meira er, ég get alveg lofað þér því að barninu þínu líður alveg eins og mínu…..taktu þér tak og vertu með börnunum þínum á myndum:o)
7 Comments
Margrét Inga Gísladóttir
Awwwww þetta er svo satt. Ég táraðist nú bara sjálf þegar ég las þetta.
Dásamlegt!
Þuríður Ósk
Yndislegt og vekur mann sannalega til umhugsunar um það sem skiptir mestu máli.
Sædís María
Vá, ég bara fékk gæsahúð þegar ég las þetta – Dagbjört alltaf svooo yndisleg og góð! og þú lítur alltaf jafn vel út Íris! 🙂
Elfa Björk Sigurjónsdóttir
Góð saga sem ég vona að sem flestir lesi. Ég hætti að forðast myndavélar eins og heitan eldinn þegar ég áttaði mig á því að hlutverk þeirra flestra er að fanga minningar, ekki útlit. Og ég vil sko sannarlega vera hluti af minningum vina minna og fjölskyldu.
Bryndís
Vá flott frásögn. Tárin bara streymdu niður kinnarnar á mér. Og þú lítur vel út á myndinni (þekki þig ekkert)
Bryndís Elsa
svo mikið satt í þessu…einhver hormónatruflun hjá mér “akkúrat núna”… ég lek við lesturinn… börnin okkar eru svo dýrmæt.
Kristín Guðmundsdóttir
Þetta er yndislega falleg saga.