Mín á miðvikudegi

1/52 mín á miðvikudegi

Milli hátíðanna skoðaði ég mikið af myndum af fjölskyldunni frá undanförnum árum og gerði mér þá grein fyrir því að ég er farinn að mynda hversdagsleikann miklu minna en áður, börnin mín  og annað sem mér er dýrmætt.

Ég sakna þess hreint að segja ótrúlega mikið og ælta þess vegna þrátt fyrir tímaskort að ráðast í mynd á viku verkefni og þið sem kíkið hingað inn fáið að fylgjast með. Ég ætla að kalla þetta verkefni “mín á miðvikudegi” og stefni á að setja inn mynd af börnunum mínum, eða öðru úr mínu persónulega lífi á hverjum miðvikudegi. Lofa ekki neinum meistarverkum í hverri viku enda snýst þetta ekki um það, heldur um að varðveita dýrmæt augnablik hversdagsins sem einmitt var ástæðan fyrir því að ég upphaflega byrjaði að taka myndir.

Á öðrum degi nýja ársins varð litli gaurinn minn 4 ára,  og eins og aðrir strákar á hans aldri er hann mikið upptekinn af ofurhetjum og leikur Batman og Súperman mikið þessa dagana. Við vorum tvö að snuddast í stúdíóinu daginn eftir afmælið hans og það var tilvalið að smella af honum mynd þegar hann hljóp um, hoppaði og gargaði “shhúú Batman” og fór á flug (eða það fannst honum allavega).