Breytingar í vændum…
Þegar sumarfríinu lýkur hefst upphaf að einhverju nýju, hér áður var það að skólinn byrjaði sem þýddi upphaf nýs skólaárs, en undanfarin ár finnst mér sumarlok/haustið vera tími breytinga og undirbúnings. Þetta er sá tími sem ég fæ alltaf ógurlega þörf fyrir að breyta og bæta heimasíðuna mína, hjá börnunum mínum eða blogginu. Í ár er þetta ekkert öðruvísi en undanfarin ár og nú eru þegar hafnar breytingar á blogginu og því má búast við að það gætu verið einhverjir hnökrar á því meðan á breytingum stendur.
Varðandi þetta blogg hef ég svo sem líka velt því fyrir mér hvort ég ætti að hætta þessu, ég hef oft á tilfinningunni að það skoði þetta enginn (amk. eru afar fáir sem commenta) og það sé tímasóun að setja myndir hingað inn. Ég hef snúist í marga hringi með hvað ég eigi að gera varðandi það, en niðurstaðan er samt alltaf sú sama, ég held áfram því mér finnst þetta vera góður vettvangur til að sýna nokkur sýnishorn úr nýjustu myndatökunum án þess að uppfæra heimasíðuna mína í hvert sinn.
Margir ljósmyndarar eru með blogg þar sem þeir sýna nýjustu myndirnar, skrifa ýmsar pælingar og nytsamlega hluti fyrir viðskiptavini sem og aðra ljósmyndara og jafnframt um ýmislegt persónulegt og margir hafa gert þetta alveg frá því þeir byrjuðu að mynda. Ég hef mjög gaman af að skoða svona og gaman að geta fylgst með framförum, breytingum og þróun þeirra og oft vildi ég að ég hefði gert þetta líka, þe. byrjað að blogga þegar ég tók fyrst upp myndavélina, því þetta hefur verið skemmtilegur og lærdómsríkur tími og það væri gaman að geta flett tilbaka. En ég hef verið feimin við að opna mig á svona stórum og opnum vettvangi sem internetið er og því skrifað mjög lítið og nánast eingöngu sett inn myndir úr myndatökum. En hver veit hvað mun verða.
Til að brjóta ísinn fylgja nokkrar myndir af mínum börnum frá því fyrr í sumar…..það bíða mín svo fleiri hundruð mynda úr fríinu til að vinna úr
Ef þú nenntir að lesa þetta þá skora ég á þig að commenta eða senda mér línu í tölvupósti, mér þætti gaman að vita hversu margir það eru sem skoða þessa síðu.
-Íris
3 Comments
Sigrún
Ég skoða síðuna þína reglulega 🙂 …og aðrar svipaðar og hef mikið gaman að. Ég verð hinsvegar að játa að ég er ekki mjög dugleg við að kommenta.
Ég hef oft verið í svipuðum pælingum og þú, hvort maður eigi bara að hætta þessu, en einhvern vegin heldur maður alltaf áfram…
Hanna K. J.
Ég er að kikja á bloggið þitt í fyrsta sinn og rosa góðar myndir sem þú hefur tekið. Hvernig linsu ertu mest að nota ?
Íris
Sæl Hanna, kommentið þitt fór alveg fram hjá mér, afsakaðu það. Takk fyrir hrósið, ég nota mest 24-70 2.8L.