Fyrsti skóladagurinn
Ég skil ekki hvernig það getur verið að “litla” stelpan mín sé byrjuð í skóla. Það er eins og það hafi verið í síðustu viku sem Stine af neðstu hæðinni keyrði okkur á sjúkrahúsið í Roskilde því ég var komin með verki. Tveimur dögum síðar þegar við komum heim í íbúðina okkar í Køge vorum við ekki lengur tvö heldur þrjú, nýr kafli var hafinn, við sem fjölskylda. Núna eru liðin rúm sex ár síðan og hvert tíminn hefur flogið er hreint óskiljanlegt og sl. miðvikudag mætti “litla” stelpan mín í skólann í fyrsta sinn, og þar með hófst enn einn nýr kafli í lífi okkar.
Hér erum við mæðgur á leið í skólann í kennaraviðtal, daginn fyrir fyrsta skóladaginn
Að springa úr spenningi og tilbúin að leggja af stað fyrsta daginn í skólann
Það er skrítið að játa það en þetta er búið að vera dálítið erfitt, finnst eins og ég sé að missa af henni, að hún fari úr því verndaða umhverfi sem leikskólinn er og yfir í það að verða mun sjálfstæðari einstaklingur. Í leikskólanum er svo auðvelt að fylgjast vel með, stelpurnar þar flestar góðir kunningjar ef ekki vinkonur og því auðvelt að fá fréttir af öllu. Það er þó sárabót á sára mömmuhjartað að kennarinn hennar er stelpa úr Hafnarfirði sem ég var í skóla með, bæði grunnskóla og framhaldskóla og þekki því vel. Hún var líka að vinna í leikskólanum, einmitt mikið á deildinni hennar Dagbjartar og í miklu uppáhaldi hjá öllum krökkunum enda er hún alveg frábær.